Dagskrá helgihaldsins 2019 komin í póst og hér á heimasíðuna

Þá ætti dagskrá helgihaldsins á vormisseri 2019 og fram á haust að vera komin í hús, eða í þann veginn að koma í hús, hjá öllum.  Auk þess má nálgast dagskrána hér að ofan undir ,,SAFNAÐARSTARF”.

20. janúar: Fjölskylduguðsþjónusta á Ólafsvöllum og dægurlagamessa í Hruna

Sunnudaginn 20. janúar nk. verða tvær messur í prestakallinu.  Sú fyrri er fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju.  Þar munu nemendur úr Tónsmiðjunni syngja undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Biblíusaga, hreyfisöngvar og gleði.  Um kvöldið verður síðan dægurlagamessa í Hrunakirkju kl. 20:30.  Kirkjukórinn mun þá syngja hugljúf lög eftir Magnús Þór Sigmundsson, hugvekjur, ritningarorð og bæn.  Notaleg kvöldsamvera.  Allir hjartanlega velkomnir.  Sjáumst í kirkju á sunnudaginn!

Helgihaldið í vetur, vor og sumar senn inn um lúgur

Dagskrá helgihaldsins í vetur, vor og sumar í Hrunaprestakalli verður dreift inn á öll heimili í prestakallinu í næstu viku.  Sem fyrr er þess vænst að dagskráin fái sitt örugga pláss á heimilinu.  Næstu messur eru sunnudaginn 20. janúar nk.; fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11 og dægurlagamessa í Hrunakirkju kl. 20:30.  Nánar um þær síðar.

Messur á gamlársdag og nýársmessa

Minnt er á tvær messur á gamlársdag, klukkan 14 í Tungufellskirkju og klukkan 16 í Stóra-Núpskirkju.  Notaleg stund við áramót þar sem m.a. verður sunginn hinn dásamlegi sálmur ,,Nú árið er liðið”.  Allir hjartanlega velkomnir.  Nýársmessa verður svo í Hrepphólakirkju sunnudaginn 6. janúar kl. 11.  Sóknarprestur þjónar fyrir altari en vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, prédikar.  Þjóðlegur hádegisverður á eftir í safnaðarheimilinu í umsjá karlanna í kirkjukórnum.  Ekki missa af þessu – allir velkomnir!

Helgihald um jól og áramót

Aðfangadagur – 24. desember:  Guðsþjónusta á jólanótt í Hrunakirkju kl. 23.

Helgistund í Stóra-Núpskirkju kl. 23:30 í umsjá sr. Axels Njarðvík.

 

Jóladagur – 25. desember:  Hátíðarmessur.  Í Stóra-Núpskirkju kl. 11 og í Hrepphólakirkju kl. 14.  Ljósaguðsþjónusta á jóladagskvöld í Ólafsvallakirkju kl.. 22.

 

Gamlársdagur – 31. desember:  Guðsþjónusta í Tungufellskirkju kl. 14 og aftansöngur í Stóra-Núpskirkju kl. 16.

 

Þrettándinn – 6. janúar:  Nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 11.  Vígslubiskupinn í Skálholti prédikar.  Þjóðlegur hádegisverður á eftir.

 

Sjáumst í kirkju um hátíðarnar – gleðileg jól!

 

 

1.-2. desember: Kveikt á ljósum í kirkjugörðum og aðventuhátíðir

Laugardaginn 1. desember nk. verða helgistundir í Hrunakirkju (kl. 14) og í Hrepphólakirkju (kl. 15) í tengslum við ljóstendrun á leiðum í kirkjugarði.  Kaffisopi á eftir í safnaðarheimilum.  Allir hjartanlega velkomnir.  Á fyrsta sunnudegi í aðventu, 2. desember, verður síðan árleg aðventuhátíð í Árnesi.  Börn úr Þjórsárskóla syngja og leika, fermingarbörn sýna helgileik, söngsveitin Tvennir tímar syngur nokkur lög.  Ræðumaður verður Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur.  Kaffiveitingar á eftir.  Um kvöldið sama dag verður aðventukvöld í Hrunakirkju þar sem kirkjukórinn syngur nokkur lög, fermingarbörn flytja helgileik, flutt verður jólasaga.  Ræðumaður þar verður Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi Karlakórs Hreppamanna.  Kaffi á eftir í safnaðarheimili.  Sjáumst á aðventusamkomum – allir hjartanlega velkomnir.

18. nóvember: Messa kl. 11 og guðsþjónusta kl. 14

Sunnudaginn 18. nóvember verður messa í Stóra-Núpskirkju kl. 11.  Sungnir verða sálmar sr. Matthíasar Jochumssonar.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Eftir hádegið, kl. 14, verður síðan guðsþjónusta í Hrepphólakirkju.  Kirkjukórinn leiðir söng undir stjórn Stefáns Þorleifssonar organista.  Molasopi á eftir í safnaðarheimili.  Allir velkomnir – sjáumst í kirkjunni!

4. nóvember: Fjölskylduguðsþjónusta á Ólafsvöllum og allra heilagra messa í Hruna

Sunnudaginn 4. nóvember verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11.  Þar verður að venju biblíusaga og mikill almennur söngur en auk þess mun kirkjukórinn syngja undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Eftir hádegið kl. 14 (ath. ekki kl. 11 eins og misritaðist í Dagskránni!) verður síðan messa í Hrunakirkju á allra heilagra messu.  Þar mun Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna syngja undir stjórn Stefáns Þorleifssonar organista.  Allir hjartanlega velkomnir – sjáumst í kirkju á sunnudaginn!

21. október: Fjölskylduguðsþjónusta kl. 11 og kvöldmessa með léttri tónlist kl. 20:30

Sunnudaginn 21. október nk. verða tvær messur í prestakallinu.  Fjölskylduguðsþjónusta verður kl. 11 í Stóra-Núpskirkju.  Tónlistaratriði, biblíusaga, sunnudagaskólalögin, mikill almennur söngur.  Kvöldmessa með léttri tónlist verður síðan í Hrepphólakirkju kl. 20:30.  Þar mun kirkjukórinn flytja hugljúf dægurlög undir stjórn organistans.  Hefðbundið messuform brotið upp og lagt upp úr notalegri samveru.  Sjáumst í kirkju á sunnudaginn – allir velkomnir!

7. október: Guðsþjónustur í Hruna og á Ólafsvöllum

Sunnudaginn 7. október verður guðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 11 og svo guðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 14.  Stefán Þorleifsson og Þorbjörg Jóhannsdóttir organistar prestakallsins stýra kórum sínum í söng í messunum.  Allir hjartanlega velkomnir.