Sameiginlegur fundur sóknarnefnda, organista og prests

Sameiginlegur fundur allra sóknarnefnda í prestakallinu var haldinn þann 9. janúar í Brautarholti. Þar voru línur lagðar fyrir starfið fram á sumar og rætt um helstu framkvæmdir framundan í kirkjunum. Organistar sögðu frá kórstarfi og sönglífi í sóknunum. Hér var hugsjóna- og dugnaðarfólk á ferð sem vill kirkjunni sinni allt það besta og ekkert minna en það! Og veitingarnar…eigum við eitthvað að ræða þær? Svakalegar!

Nýársmessa í Hrepphólakirkju 8. janúar

Nýársmessa verður í Hrepphólakirkju sunnudaginn 8. janúar kl. 11.  Kirkjukórinn leiðir söng undir stjórn Stefáns Þorleifssonar organista.  Þjóðlegur hádegisverður á eftir í safnaðarheimili á vægu verði (1000 kr. fyrir fullorðna) – reiddur fram af körlunum í kirkjukórnum.  Allir hjartanlega velkomnir!

Helgihaldið um jól og áramót

Hrepphólakirkja:  Guðsþjónusta á aðfangadagskvöld 24. des. kl. 23.

Ólafsvallakirkja:  Hátíðarmessa á jóladag 25. des. kl. 11.

Hrunakirkja:  Hátíðarmessa á jóladag 25. des. kl. 14.

Stóra-Núpskirkja:  Hátíðarmessa á jóladagskvöld 25. des. kl. 22.       Aftansöngur á gamlársdag 31. des. kl. 16:30.

Tungufellskirkja:  Guðsþjónusta á gamlársdag 31. des. kl. 14:30.

Sjáumst í kirkju um jólin – gleðilega hátíð!

9. des: Jólatónleikar í Skálholti

Föstudagskvöldið 9. desember nk. kl. 20 verða jólatónleikar í Skálholtskirkju. Þar mun Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna syngja undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur og einnig Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar.  Einsöngvarar verða Egill Árni Pálsson og Þóra Gylfadóttir.  Miðaverð 2500 kr.  Allir velkomnir!

Leikskólaheimsóknum prests lokið á þessu misseri

Síðastliðnar vikur hefur prestur heimsótt börnin í leikskólum prestakallsins, Undralandi og Leikholti.  Mikið er sungið í þessum stundum og svo er gefið pláss fyrir eina stutta sögu.  Í síðustu tveimur heimsóknum kveiktum við á kertum á aðventukransinum og tókum létt spjall um jólin og jólaundirbúninginn.  Sannkallaðar gleði- og gæðastundir.

4. desember: Aðventukvöld í Árnesi kl. 20

Á öðrum sunnudegi í aðventu, 4. desember kl. 20, verður aðventukvöld í félagsheimilinu í Árnesi.  Nemendur úr Þjórsárskóla syngja og flytja helgileik.  Fermingarbörn lesa lestra.  Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Ræðumaður er Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi.  Léttar kaffiveitingar á eftir.  Allir hjartanlega velkomnir!

Egill Helgason á aðventukvöldi í Hrunakirkju

Sunnudagskvöldið 27. nóvember nk. kl. 20:30 verður aðventukvöld í Hrunakirkju.  Ræðumaður verður Egill Helgason, stjórnmálaskýrandi og umsjónarmaður Kiljunnar.  Auk þess munu fermingarbörn úr prestakallinu lesa lestra og Marta Ester Hjaltadóttir flytur jólasögu.  Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna syngur aðventu- og jólalög undir stjórn Stefáns Þorleifssonar organista.  Kaffihressing í safnaðarheimili að dagskrá lokinni. Allir hjartanlega velkomnir!

Ljós kveikt í Hrepphólakirkjugarði og helgistund í kirkjunni kl. 15

Eftir hádegi laugardaginn 26. nóvember nk. verður aðstoð veitt við að tendra ljós á leiðum í kirkjugarðinum í Hrepphólum.  Að venju verður helgistund í kirkjunni í tengslum við ljóstendrunina kl. 15 og molasopi á eftir.  Allir velkomnir!

Minningarhátíð í Skálholti um Jón Arason biskup – mánudaginn 7. nóv. – allir velkomnir!

Þess verður minnst í Skálholti mánudaginn 7. nóvember n.k. að þann dag árið 1550 var Jón Arason biskup á Hólum líflátinn ásamt sonum sínum tveimur.

 Að þessu sinni verður dagskráin með eftirfarandi sniði:  Kl. 17 verður dagskrá til minningar um Jón Arason í Skálholtsdómkirkju. Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar og Bjarni Harðarson fjallar um aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans Björns og  Ara út frá aðstæðum á staðnum. Vígslubiskup Kristján Valur Ingólfsson minnist þeirra feðga í bænargjörð. Samkomunni lýkur með blysför að minnisvarðanum um Hólafeðga.

 kl. 20.00 verður söngdagskrá kirkjukóra úr Suðurprófastdæmi í Skálholtsdómkirkju.

Þetta er árleg kóradagskrá á minningardegi um Jón biskup Arason og í ár koma fjórir kirkjukórar sem syngja sameiginlega og eigin dagskrá, auk þess að syngja með kirkjugestum.  Vígslubiskup, prófastur og prestar munu lesa ritningarlestra og bænir.
Kórarnir sem syngja eru Kór Selfosskirkju, stjórnandi Edit Molnar, Kór Hruna- og Hrepphólakirkju, stjórnandi Stefán Þorleifsson, Kór Odda- og Þykkvabæjarkirkju, stjórnandi Kristín Sigfúsdóttir og Skálholtskórinn, stjórnandi Jón Bjarnason. Umsjón með dagskránni hefur Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.  Allir eru hjartanlega velkomnir og er aðgangur ókeypis. Á eftir verður hægt að kaupa veitingar í Skálholtsskóla.

6. nóvember – allraheilagra messa: Nágrannar í heimsókn á Stóra-Núpi

Sunnudaginn 6. nóvember sem er allra heilagra messa verður messa kl. 14 í Stóra-Núpskirkju.  Eins og venja er til á allra heilagra messu þá verður látinna ástvina minnst.  Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna kemur í kirkjuheimsókn og mun leiða messusönginn undir stjórn Stefáns Þorleifssonar organista.  Allir hjartanlega velkomnir!