Aðventukvöld á Flúðum og í Árnesi

Það styttist í aðventutímann og því skal minnt á aðventukvöldin tvö í prestakallinu.  Það fyrra verður í Félagsheimilinu á Flúðum á fyrsta sunnudegi í aðventu, 30. nóv., kl. 20:30.  Þar munu fermingarbörn sýna helgileik, kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna ásamt kór eldri Hrunamanna syngja aðventu- og jólalög.  Ræðumaður verður Lýður Árnason, héraðslæknir í Laugarási.  Sóknarprestur stýrir samkomunni og kveikt verður á aðventukransi.  Seinna aðventukvöldið verður í Félagsheimilinu í Árnesi annan sunnudag í aðventu, 7. desember, kl. 20.  Þar munu börn úr Þjórsárskóla sýna helgileik, kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna syngur aðventu- og jólalag, kveikt á aðventukransi og sóknarprestur flytur hugvekju.  Sjáumst á aðventukvöldum – allir velkomnir!

Allra heilagra messa 2. nóvember: Messur í Hruna og á Ólafsvöllum

Allra heilagra messa er sunnudaginn 2. nóvember en þá er látinna minnst með sérstökum hætti.  Messur verða í Hrunakirkju kl. 11 og í Ólafsvallakirkju kl. 14.  Kirkjukórar syngja undir stjórn organista.  Allir velkomnir!

Fermingarstörfin fara vel af stað

Fermingarstörfin eru hafin og kemur fermingarhópurinn vikulega til fræðslusamveru í safnaðarheimili Hrunakirkju.  Þrettán börn taka þátt í fermingarundirbúningnum en auk þess að mæta í fræðslusamverur er gert ráð fyrir reglulegum messumætingum og skipta fermingarbörnin þá með sér að starfa í messunni.  Hver fræðslusamvera hefst á stuttu spjalli yfir síðdegishressingu, síðan er farið yfir verkefni dagsins og ef verður leyfir er farið út í göngutúr eða brugðið á leik.  Undir lok samverunnar er farið í Hrunakirkju þar sem við eigum saman stutta helgistund.

Fjölskylduguðsþjónusta flyst frá 2. nóv. til 16. nóv.

Vakin er athygli á því að fjölskylduguðsþjónusta sem vera átti í Hrunakirkju sunnudaginn 2. nóvember flyst í Hrepphólakirkju og verður sunnudaginn 16. nóvember kl. 14.  Er þetta gert vegna vetrarfrís í Flúðaskóla sem er í kringum fyrstu helgina í nóvember.  Hins vegar verður hefðbundin messa í Hrunakirkju sunnudaginn 2. nóvember kl. 11, sem er allra heilagra messa þar sem látinna verður minnst.

19. október: Guðsþjónustur í Hrepphólum og á Stóra-Núpi

Sunnudaginn 19. október verða tvær guðsþjónustur í prestakallinu.  Sú fyrri í Hrepphólakirkju kl. 11 og hin síðari í Stóra-Núpskirkju.  Kirkjukórarnir leiða sönginn undir stjórn organista.  Fermingarbörn aðstoða í athöfnunum.  Allir velkomnir!

Sálmar sr. Valdimars Briem sungnir á hljómdisk

Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna stefnir á að taka upp á hljómdisk nokkra valda sálma eftir sr. Valdimar Briem (1848-1930) sálmaskáld og vígslubiskup á Stóra-Núpi.  En sem kunnugt er þá er sr. Valdimar meðal fremstu sálmaskálda okkar Íslendinga og sálmar hans í núverandi sálmabók kirkjunnar eru taldir í tugum.  Upptökur fara fram á fyrri hluta næsta árs og eru æfingar fyrir þær þegar hafnar undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.

Fermingarfræðslan hefst 6. október kl. 15 í Hruna

Fermingarfræðslutímar hefjast mánudaginn 6. október kl. 15 og verða í safnaðarheimili Hrunakirkju.  Eins og undanfarin ár mun skólabíll koma börnunum upp í Hruna strax eftir skóla en foreldrar sjá svo um að sækja þegar fræðslunni lýkur um kl. 17.  Fræðslutímar verða á mánudögum í október og nóvember.

5. október: Nýr sóknarprestur settur formlega inn í embætti

Sunnudaginn 5. október nk. kl. 14 fer fram guðsþjónusta í Hrunakirkju.  Þá mun prófastur Suðurprófastsdæmis, sr. Halldóra Þorvarðardóttir, setja nýjan sóknarprest, sr. Óskar Hafstein Óskarsson, formlega inn í embætti.  Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna syngur undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Léttar kaffiveitingar í safnaðarheimili á eftir.  Allir velkomnir!

24. sept.: Fundur með fermingarbörnum og foreldrum

Miðvikudagskvöldið 24. september kl. 20:30 verður kynningarfundur í safnaðarheimili Hrunakirkju á fermingarstörfum vetrarins.  Foreldrar og fermingarbörn eru boðuð til fundarins og verður rætt um skipulag fræðslunnar, þátttöku í helgihaldi og svo fermingardaga næsta vors.

Helgihald á haustmisseri 2014 og um áramót

5. okt.:                Innsetningarmessa í Hrunakirkju kl. 14.  Prófastur setur nýjan sóknarprest formlega inn í embætti. Kaffi á eftir.

 19. okt.:            Guðsþjónustur.  Hrepphólakirkja kl. 11 og Stóra-Núpskirkja kl. 14.
—-
  2. nóv.:            Fjölskylduguðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 11 og messa í Ólafsvallakirkju kl. 14.
16. nóv.:            Fjölskylduguðsþjónusta í Stóra-Núpskirkju kl. 11 og messa í Hrepphólakirkju kl. 14.
29. nóv. (lau.):              Helgistund í Hrepphólakirkju kl. 15.  Kveikt á ljósum í kirkjugarði.
30. nóv.:            Aðventuguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11 og aðventukvöld í félagsheimilinu á Flúðum kl. 20.

—-
  7. des.:             Aðventuguðsþjónusta í Hrepphólakirkju kl. 11 og aðventukvöld í félagsheimilinu Árnesi kl. 20.

24. des.:             Guðsþjónusta á aðfangadagskvöld í Hrunakirkju kl. 23.
25. des.:             Hátíðarmessur.  Stóra-Núpskirkja kl. 11 og Hrepphólakirkja kl. 14.
Ljósaguðsþjónusta á jóladagskvöld í Ólafsvallakirkju kl. 22.  Kirkjan lýst upp með kertaljósum.

31. des.:             Guðsþjónusta á gamlársdag í Tungufellskirkju kl. 15.

Aftansöngur í Stóra-Núpskirkju kl. 16:30.

  –

  4. jan.:             Nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 14.