Unga fólkið undirbýr messu

Í síðustu viku átti sóknarprestur fund með nemendum í 10. bekk Flúðaskóla ásamt umsjónarkennara.  Þar var verið að leggja línurnar fyrir unglingamessu sem verður í Hrunakirkju sunnudaginn 1. mars nk. kl. 11.  Lagt er upp með það að nemendur úr 9. og 10. bekk skipuleggi messu frá upphafi til enda og flytji þar bæði talað mál og sungið.  Þessi viðburður er liður í dagskrá í tengslum við 150 ára afmæli Hrunakirkju.  Í næstu viku verður æfing í kirkjunni en spennandi verður að sjá hvernig messu unga fólkið okkar vill bjóða söfnuðinum upp á.

Fermingarfræðslan hefst mánudaginn 2. febrúar

Fermingarfræðslan hefst að nýju eftir jólafrí mánudaginn 2. febrúar.  Sem fyrr fer fræðslan fram í safnaðarheimili Hrunakirkju frá kl. 15-17.  Gaman verður að hitta fermingarbörnin aftur enda unga fólkið okka alveg sérstaklega skemmtilegt fólk.  Fyrsta ferming ársins verður svo á annan í páskum í Ólafsvallakirkju.  Síðan verður fermt í Hrunakirkju á hvítasunnudag og í Stóra-Núpskirkju á annan í hvítasunnu.

Sálmar og dægurlög – kirkjukórar undirbúa tónleikahald

Kirkjukórar prestakallsins eru þessar vikurnar að undirbúa sig fyrir tónleikahald.  Kirkjukór Ólafsvalla- og Stóra-Núpskirkju æfir nokkra vel valda sálma úr sjóði sr. Valdimars Briem en ætlunin er að taka sönginn upp á disk og halda tónleika samhliða þegar nær dregur vori.  Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna æfir fyrir svokallaða SG-tónleika sem haldnir verða í félagsheimilinu á Flúðum mánudaginn 11. maí.  Þar verða flutt dægulög, einkum frá tímabilinu 1950-1970.  Kórarnir njóta þess nú að fá aðeins hlé á messusöngnum til að æfa fyrir tónleikana.

Hrunakirkja 150 ára

Á þessu ári, 2015, verður haldið upp á 150 ára afmæli Hrunakirkju en kirkjan var vígð á fyrsta sunnudegi í aðventu árið 1865. Sérstök afmælisnefnd var skipuð af sóknarnefnd kirkjunnar til að undirbúa afmælið. Í henni eiga sæti Marta E. Hjaltadóttir, Helgi Jóhannesson, Guðrún Sveinsdóttir, Anna Matthíasdóttir, Magga Brynjólfsdóttir og sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Ákveðið hefur verið að efna til nokkurra viðburða á árinu í tilefni afmælisins. Þeir verða sem hér segir:

1. mars:  Æskulýðsmessa kl. 11.  Ungt fólk úr prestakallinu mun bera uppi messuna í tali og tónum.

7. júní:  1865-messa kl. 14.  Hátíðarmessa þar sem fylgt verður messuforminu frá 1865 og sálmavalið mun líka taka mið af því.  Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, þjónar ásamt sóknarpresti.  Fólk hvatt til að koma í þjóðlegum klæðum til messu og ríðandi þeir sem geta.

5. september:  Uppskeruhátíð kl. 11.  Hefst með fjölskylduguðsþjónustu en síðan munu börn og fullorðnir etja kappi í leikjum á túninu við kirkjuna.  Boðið verður upp á grillaðar pylsur og svaladrykk.

29. nóvember:  Hátíðarmessa kl. 14 á fyrsta sunnudegi í aðventu.  Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prédikar.  Afmælisdagskrá og kaffi í félagsheimilinu á Flúðum á eftir.

Viðburðirnir verða nánar kynntir þegar að þeim kemur.  Þá hefur afmælisnefndin í hyggju að opna sérstakan afmælisreikning þar sem einstaklingum, fyrirtækjum og velunnurum gefst kostur á að styrkja afmælisverkefni sem ætlunin er að ráðast í á árinu og verður það einnig kynnt nánar fljótlega.

Stóra-Núpskirkja í messufríi til páska

Framundan eru framkvæmdir við Stóra-Núpskirkju.  Ráðist verður í að rétta og lagfæra gólf kirkjunnar sem staðið hefur fyrir dyrum um nokkra hríð.  Þetta þýðir að messuhald liggur niðri á meðan á framkvæmdum stendur en stefnt er að því að syngja páskamessuna á nýlagfærðu gólfinu þann 5. apríl kl. 14.  Þangað til er bent á helgihald í öðrum kirkjum prestakallsins.

Notaleg kvöldmessa

Í gær, 18. janúar, var kvöldmessa í Hrunakirkju.  Messan var óvenjuleg að því leyti að kirkjukórinn sem venjulega stendur inn í kór kirkjunnar sat nú á kirkjubekkjunum og söng þaðan.  Sungin voru þekkt dægurlög í bland við rótgróna sálma.  Kórfélagar lásu lestra, sjálfvalda, sem hæfðu einstaklega vel andrúminu og sömuleiðis lásu kórfélagar almennu kirkjubænina með presti.  Sunneva Sól Árnadóttir söng einsöng og gerði það fallega.  Áhrifaríkt var þegar kórinn söng sálm sr. Hallgríms Péturssonar; Nú vil ég enn í nafni þínu, í lok messunnar.  En fyrsta erindið var sungið af einni manneskju og svo bættust við fleiri og fleiri raddir inn í sönginn eftir því sem leið á sálminn.   Einstaklega ljúf stund í kirkjunni sem margir fengu að njóta.

Dagskrá helgihaldsins næstu mánuði liggur fyrir

Dagskrá helgihaldsins í Hrunaprestakalli í vetur, vor og sumar liggur fyrir.  Hana má sjá undir liðnum ,,Safnaðarstarf” hér fyrir ofan.  Sem fyrr er stefnt að reglulegu og fjölbreyttu starfi.  Ein fjölskylduguðsþjónusta verður í hverjum mánuði til vors og svo er auðvitað hefðbundið helgihald um páska.  Útiguðsþjónusta, hestamannamessa, síðsumarsmessa og uppskeruhátíð eru svo meðal þeirra stefnumóta sem boðað er til í kirkjunum í sumar.

Fjölskylduguðsþjónusta og kvöldmessa 18. janúar

Sunnudaginn 18. janúar verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11.  Sunnudagaskólalögin rifjuð upp og barnasálmarnir ásamt biblíusögu og þá er jafnvel von á gesti í heimsókn.  Samvera fyrir alla fjölskylduna.  Um kvöldið kl. 20:30 verður svo kvöldmessa með léttri tónlist í Hrunakirkju.  Þá mun Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna flytja dægurlög og létta sálma og sóknarprestur flytur ritningarorð, hugvekju og bæn.  Hefðbundið messuform er aðeins brotið upp.  En umsjón með kvöldmessunni hafa Stefán organisti og Óskar prestur.  Allir velkomnir!

4. janúar: Nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 14

Fyrsta messa ársins 2015 verður í Hrepphólakirkju sunnudaginn 4. janúar kl. 14.  Í nýársmessunni syngur kirkjukórinn undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Kaffi á eftir í safnaðarheimili.  Allir velkomnir!

Tvær messur á gamlársdag

Á gamlársdag, 31. desember, verður áramótaguðsþjónusta í Tungufellskirkju kl. 15.  Stefán Þorleifsson verður forsöngvari og leiðir almennan safnaðarsöng.  Aftansöngur verður svo í Stóra-Núpskirkju kl. 16:30.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Komum saman í kirkjunni og kveðjum gamla árið.  Allir velkomnir!