7. desember: Fjölskylduguðsþjónusta í Hruna og aðventukvöld í Árnesi

Á öðrum sunnudegi í aðventu, 7. des., verður fjölskylduguðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 11.  Þar munu nemendur úr 5. bekk Flúðaskóla sýna helgileik, barnakórinn syngur ásamt kirkjukór, fermingarbörn flytja aðventusögu og að sjálfsögðu verður kveikt á kertum á aðventukransinum.  Allir velkomnir!

Um kvöldið, þann 7. des. kl. 20, verður svo aðventukvöld í Félagsheimilinu í Árnesi.  Þar munu nemendur úr Þjórsárskóla sýna helgileik, kirkjukórinn syngur aðventu- og jólalög, fermingarbörn flytja aðventusögu og sóknarprestur flytur hugleiðingu.  Kaffi og piparkökur á eftir.  Allir velkomnir!

Aðventukvöldi á Flúðum aflýst!

Vegna slæmrar veðurspár og viðvarana frá Almannavörnum hefur verið ákveðið að aflýsa aðventukvöldi sem vera átti í Félagsheimilinu á Flúðum í kvöld, 30. nóvember.  Um leið er minnt á fjölskylduguðsþjónustu í Hrunakirkju sunnudaginn 7. desember kl. 11 og aðventukvöld í félagsheimilinu í Árnesi á sunnudagskvöldinu 7. des. kl. 20.

Lýður Árnason læknir talar á aðventukvöldi á Flúðum

Fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember nk. kl. 20:30, verður aðventukvöld í Félagsheimilinu á Flúðum.  Kór eldri Hrunamanna syngur ásamt kirkjukórnum.  Fermingarbörnin sýna helgileik.  Ræðumaður á aðventukvöldinu verður nýskipaður héraðslæknir okkar uppsveitamanna, Lýður Árnason.  Boðið verður upp á kaffi og piparkökur á eftir.   Hruna- og Hrepphólasóknir standa sameiginlega að aðventukvöldinu.  Allir velkomnir!

Að ganga í þjóðkirkjuna og treysta starfið í nærumhverfinu

Viltu ganga í þjóðkirkjuna og þannig tryggja að sóknargjöldin renni til uppbyggingar í þínu nærumhverfi?  Hver einasta króna sóknargjaldsins sem þú greiðir mánaðarlega fer í uppbyggingu á kirkjustarfi í þinni sókn.  Það er einfalt mál að ganga í þjóðkirkjuna. Fylla þarf eitt eyðublað, prenta það út og senda! Eyðublað þetta til útprentunar má nálgast á heimasíðu Þjóðskrár (skra.is) og þau má einnig fá hjá prestunum. Einnig er hægt að ganga frá skráningunni með rafrænum skilríkjum:

Fyrir börn yngri en 16 ára
Báðir foreldrar eða forsjármenn þurfa að skrifa undir tilkynningar barna sinna yngri en 16 ára. Börn sem eru orðin 12 ára þurfa einnig að skrifa undir sína umsókn með forsjármönnum. Eyðublöðin má skila í hendur sóknarpresta eða senda sem símbréf (515 5310) til Þjóðskrár eða í pósti, merkt: Þjóðskrá, Borgartúni 21, 105 Reykjavík.  Nánari upplýsingar veitir sr. Óskar í s. 856-1572.

Kakó og helgileikur í fermingarfræðslu

Í fermingarfræðslusamverunni í dag, 24. nóvember, var boðið upp á heitt kakó og jólaköku.  Tilefnið var að nú er aðventan í nánd.  Að því búnu var hafist handa við að æfa helgileik sem fluttur verður á aðventukvöldunum sem framundan eru næstu tvö sunnudagskvöld.  Var helgileikurinn bæði æfður í safnaðarheimilinu og í kirkjunni.  Að lokinni helgistund í kirkjunni var brugðið á leik í safnaðarheimilinu.

Fjölbreytt aðventudagskrá framundan

Aðventan í Hrunaprestakalli hefst með helgistund í Hrepphólakirkju laugardaginn 29. nóvember kl. 15.  Kveikt verður á ljósum í kirkjugarði.  Síðan verður aðventuguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu 30. nóv. kl. 11.  Kirkjukórinn syngur aðventusálma og kveikt verður á aðventukransi.  Aðventukvöld verður svo í Félagsheimilinu á Flúðum um kvöldið kl. 20:30.  Fermingarbörn sýna helgileik, kór eldri Hrunamanna syngur ásamt kirkjukórnum, ræðumaður verður Lýður Árnason læknir.  Kaffi og smákökur á eftir.  Allir velkomnir!

Aðventuguðsþjónusta færist úr Hrepphólum í Hruna

Aðventuguðsþjónusta sem vera átti í Hrepphólakirkju sunnudaginn 7. desember kl. 11 flyst yfir í Hrunakirkju (á sama tíma).  Er þetta gert vegna þess hve margir þátttakendur verða í guðsþjónustunni en barnakór Flúðaskóla mun syngja og auk þess sýna nemendur í 5. bekk helgileik.  Það má því búast við góðri mætingu en allir ættu þó vel að komast fyrir í Hrunakirkju. Helstu viðburðir á aðventu eru því:

29. nóv. – laugardagur:  Helgistund í Hrepphólakirkju kl. 15.  Kveikt á ljósum í kirkjugarði.

30. nóv. – sunnudagur:  Aðventuguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11 og aðventukvöld í félagsheimilinu á Flúðum kl. 20:30.

7. des. – sunnudagur:  Aðventuguðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 11 og aðventukvöld í félagsheimilinu í Árnesi kl. 20.

Sjóðurinn góði – fjárhagsaðstoð fyrir jólin

Sjóðurinn góði er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu. Þetta samstarf hefur staðið síðan árið 2008 og hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum. Síðustu ár hefur sjóðurinn einnig verið í samstarfi við Hjálparstofnun kirkjunnar varðandi þessa aðstoð.

Dagana 2. og 3. desember nk. verður hægt að sækja um fjárhagsaðstoð úr sjóðnum, í Selinu við Engjaveg 44 frá kl 10 – 14 báða dagana. Einnig munu prestar viðkomandi kirkjusókna taka við umsóknum og aðstoða við umsóknarferlið. Aðstoðin er í formi korta sem eingöngu er hægt að nýta í matvöruverslunum í Árnessýslu.

Hafi umsækjendur áður fengið kort frá Hjálparstofnun kirkjunnar eða frá Sjóðnum góða á síðasta ári er hægt að sækja um að lagt verði inn á kortið.

Mikilvægt er að umsækjendur virði ofangreinda umsóknardaga.

Vilji einhver leggja Sjóðnum góða lið þá eru öll framlög vel þegin. Reikningsnúmer sjóðins er: 325-13-301169, kennitala 5602692269. Þessi reikningur er í vörslu Selfosssóknar og lýtur sama hætti og aðrir reikningar sóknarinnar

Fullar kirkjur í fjölskylduguðsþjónustum

Nærri húsfyllir var í fjölskylduguðsþjónustunum tveimur sem voru í dag 16. nóvember.  Barnakórar skólanna sungu eins og englar undir stjórn Helgu Kolbeinsdóttur en undirleikari var Þorbjörg Jóhannsdóttir.  Börn og fullorðnir tóku einnig virkan þátt í söngnum.  Þá var þess minnst að í dag er Dagur íslenskrar tungu og sungu kórarnir lagið fallega ,,Á íslensku má alltaf finna svar”.

16. nóvember: Fjölskylduguðsþjónustur á Stóra-Núpi og í Hrepphólum

Sunnudaginn 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, verður fjölskylduguðsþjónusta í Stóra-Núpskirkju kl. 11.  Börn úr Þjórsárskóla syngja undir stjórn Helgu Kolbeinsdóttur.  Bibilíusaga, mikill söngur og notaleg samvera.  Þorbjörg organisti spilar undir.  Eftir hádegið kl. 14 verður svo önnur fjölskylduguðsþjónusta í Hrepphólakirkju, þar munu börn úr Flúðaskóla syngja undir stjórn Helgu Kolbeinsdóttur og Stefán Þorleifsson leikur undir á orgelið.  Samvera ætluð allri fjölskyldunni – allir velkomnir!