Samvera með eldri borgurum í Brautarholti

Í dag fór fram notaleg samvera í bókasafninu í Brautarholti.  Eldri borgarar úr sveitinni koma þar saman hálfsmánaðarlega yfir veturinn, á föstudögum.  Nú var jólayfirbragð á samverunni sem Vilmundur Jónsson stýrði. Rosemarie Þorleifsdóttir sagði frá bernskuminningum sínum tengdum jólum og las jólasögu, sóknarprestur flutti jólahugvekju og börn úr Þjórsárskóla sungu og léku jólalög á hljóðfæri undir stjórn Magneu Gunnarsdóttur.  Á eftir var svo boðið upp á heitt súkkulaði og kökuhlaðborð.

 

Prestur í leikskóla og grunnskólabörn heimsækja kirkjur

Á miðvikudagsmorgnum undan farnar vikur hefur sóknarprestur heimsótt leikskólabörn í leikskólanum Undralandi á Flúðum og Leikholti í Brautarholti.  Í síðustu samveru var farið yfir nöfnin á kertum aðventukransins og á morgun verður jólasagan sögð með fallegum Biblíumyndum.  En auk þess að heyra sögu er mikið sungið í þessum samverum og spurt, eins og vera ber.  Á fimmtudaginn tekur sóknarprestur á móti nemendum í elstu bekkjum Þjórsárskóla í Stóra-Núpskirkju, þar fá þau fræðslu um kirkjuna og kirkjuhúsið auk þess sem sungin verða jólalög.  Eftir hádegið koma svo nemendur í yngstu bekkjunum í heimsókn í Ólafsvallakirkju og fá þar fræðslu ásamt því að syngja.  Frá Ólafsvöllum verður síðan haldið að Blesastöðum þar sem börnin flytja heimilisfólki þar helgileik og sóknarprestur stýrir stuttri helgistund.

Helgihald um jól og áramót

24. desember – aðfangadagur:  Miðnæturguðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 23.

25. desember – jóladagur:         Hátíðarmessur.  Í  Stóra-Núpskirkju kl. 11 og í Hrepphólakirkju kl. 14.  Hátíðarsöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar sungnir.

Ljósaguðsþjónusta á jóladagskvöld í Ólafsvallakirkju kl. 22.  Kirkjan lýst upp með kertaljósum.

31. desember – gamlársdagur:  Guðsþjónusta í Tungufellskirkju kl. 15.  Forsöngvari leiðir sönginn.  Aftansöngur í Stóra-Núpskirkju kl. 16:30.  Gamla árið kvatt.

4. janúar:                                   Nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 14.  Nýju ári heilsað.

Sjáumst í kirkjunum um hátíðarnar!

7. desember: Fjölskylduguðsþjónusta í Hruna og aðventukvöld í Árnesi

Á öðrum sunnudegi í aðventu, 7. des., verður fjölskylduguðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 11.  Þar munu nemendur úr 5. bekk Flúðaskóla sýna helgileik, barnakórinn syngur ásamt kirkjukór, fermingarbörn flytja aðventusögu og að sjálfsögðu verður kveikt á kertum á aðventukransinum.  Allir velkomnir!

Um kvöldið, þann 7. des. kl. 20, verður svo aðventukvöld í Félagsheimilinu í Árnesi.  Þar munu nemendur úr Þjórsárskóla sýna helgileik, kirkjukórinn syngur aðventu- og jólalög, fermingarbörn flytja aðventusögu og sóknarprestur flytur hugleiðingu.  Kaffi og piparkökur á eftir.  Allir velkomnir!

Aðventukvöldi á Flúðum aflýst!

Vegna slæmrar veðurspár og viðvarana frá Almannavörnum hefur verið ákveðið að aflýsa aðventukvöldi sem vera átti í Félagsheimilinu á Flúðum í kvöld, 30. nóvember.  Um leið er minnt á fjölskylduguðsþjónustu í Hrunakirkju sunnudaginn 7. desember kl. 11 og aðventukvöld í félagsheimilinu í Árnesi á sunnudagskvöldinu 7. des. kl. 20.

Lýður Árnason læknir talar á aðventukvöldi á Flúðum

Fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember nk. kl. 20:30, verður aðventukvöld í Félagsheimilinu á Flúðum.  Kór eldri Hrunamanna syngur ásamt kirkjukórnum.  Fermingarbörnin sýna helgileik.  Ræðumaður á aðventukvöldinu verður nýskipaður héraðslæknir okkar uppsveitamanna, Lýður Árnason.  Boðið verður upp á kaffi og piparkökur á eftir.   Hruna- og Hrepphólasóknir standa sameiginlega að aðventukvöldinu.  Allir velkomnir!

Að ganga í þjóðkirkjuna og treysta starfið í nærumhverfinu

Viltu ganga í þjóðkirkjuna og þannig tryggja að sóknargjöldin renni til uppbyggingar í þínu nærumhverfi?  Hver einasta króna sóknargjaldsins sem þú greiðir mánaðarlega fer í uppbyggingu á kirkjustarfi í þinni sókn.  Það er einfalt mál að ganga í þjóðkirkjuna. Fylla þarf eitt eyðublað, prenta það út og senda! Eyðublað þetta til útprentunar má nálgast á heimasíðu Þjóðskrár (skra.is) og þau má einnig fá hjá prestunum. Einnig er hægt að ganga frá skráningunni með rafrænum skilríkjum:

Fyrir börn yngri en 16 ára
Báðir foreldrar eða forsjármenn þurfa að skrifa undir tilkynningar barna sinna yngri en 16 ára. Börn sem eru orðin 12 ára þurfa einnig að skrifa undir sína umsókn með forsjármönnum. Eyðublöðin má skila í hendur sóknarpresta eða senda sem símbréf (515 5310) til Þjóðskrár eða í pósti, merkt: Þjóðskrá, Borgartúni 21, 105 Reykjavík.  Nánari upplýsingar veitir sr. Óskar í s. 856-1572.

Kakó og helgileikur í fermingarfræðslu

Í fermingarfræðslusamverunni í dag, 24. nóvember, var boðið upp á heitt kakó og jólaköku.  Tilefnið var að nú er aðventan í nánd.  Að því búnu var hafist handa við að æfa helgileik sem fluttur verður á aðventukvöldunum sem framundan eru næstu tvö sunnudagskvöld.  Var helgileikurinn bæði æfður í safnaðarheimilinu og í kirkjunni.  Að lokinni helgistund í kirkjunni var brugðið á leik í safnaðarheimilinu.

Fjölbreytt aðventudagskrá framundan

Aðventan í Hrunaprestakalli hefst með helgistund í Hrepphólakirkju laugardaginn 29. nóvember kl. 15.  Kveikt verður á ljósum í kirkjugarði.  Síðan verður aðventuguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu 30. nóv. kl. 11.  Kirkjukórinn syngur aðventusálma og kveikt verður á aðventukransi.  Aðventukvöld verður svo í Félagsheimilinu á Flúðum um kvöldið kl. 20:30.  Fermingarbörn sýna helgileik, kór eldri Hrunamanna syngur ásamt kirkjukórnum, ræðumaður verður Lýður Árnason læknir.  Kaffi og smákökur á eftir.  Allir velkomnir!

Aðventuguðsþjónusta færist úr Hrepphólum í Hruna

Aðventuguðsþjónusta sem vera átti í Hrepphólakirkju sunnudaginn 7. desember kl. 11 flyst yfir í Hrunakirkju (á sama tíma).  Er þetta gert vegna þess hve margir þátttakendur verða í guðsþjónustunni en barnakór Flúðaskóla mun syngja og auk þess sýna nemendur í 5. bekk helgileik.  Það má því búast við góðri mætingu en allir ættu þó vel að komast fyrir í Hrunakirkju. Helstu viðburðir á aðventu eru því:

29. nóv. – laugardagur:  Helgistund í Hrepphólakirkju kl. 15.  Kveikt á ljósum í kirkjugarði.

30. nóv. – sunnudagur:  Aðventuguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11 og aðventukvöld í félagsheimilinu á Flúðum kl. 20:30.

7. des. – sunnudagur:  Aðventuguðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 11 og aðventukvöld í félagsheimilinu í Árnesi kl. 20.