Aðalsafnaðarfundur í Hrunasókn

Aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar var haldinn í safnaðarheimilinu í Hruna mánudagskvöldið 4. maí kl. 20:30.  Marta Esther Hjaltadóttir fór yfir starfsemi sóknarinnar á síðasta ári og Jóhanna Bríet Ingólfsdóttir gjaldkeri lagði fram reikninga sóknarinnar og voru þeir samþykktir.  Þá las ritari, Þorleifur Jóhannesson, fundargerð síðasta aðalsafnaðarfundar.  Sr. Óskar kynnti reikninga prestakallssjóðs og ræddi helstu þætti í kirkjustarfi sóknar og prestakalls.  Kosið var um tvo aðalmenn í sóknarnefnd til fjögurra ára og voru þær Marta og Jóhanna kosnar með lófataki.  Tveir nýir fulltrúar voru kjörnir í varasóknarnefnd til fjögurra ára, þau Aðalsteinn Þorgeirsson á Hrafnkelsstöðum og Valný Guðmundsdóttir í Skipholti.  Almennar umræður voru um starfið í sókninni framundan, m.a. um fyrirhugaðar framkvæmdir við kirkjugarð en hlaða á upp nýjan grjótvegg þar á þessu sumri, þá var einnig rætt um helstu viðburði á 150 ára afmæli kirkjunnar á þessu ári.  Einnig urðu umræður um hvort kirkjan eigi alltaf að vera opin eins og verið hefur.  Sömuleiðis urðu umræður um varðveislu ýmissa gripa í eigu kirkjunnar sem bæði eru í krikjunni sjálfri og í safnaðarheimilinu.  Frekari umræður og úrlausn voru falin sóknarnefnd.  Boðið var upp á myndarlegar kaffiveitingar á fundinum en fundarmenn voru hátt á annan tuginn.

Aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar

Mánudaginn 27. apríl sl. var aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar haldinn í safnaðarheimili kirkjunnar.  Magnús H. Sigurðsson formaður sóknarnefndar fór yfir helstu starfsþætti síðasta árs og Arnfríður Jóhannsdóttir gjaldkeri lagði fram reikninga sóknarinnar sem samþykktir voru samhljóða.  Sr. Óskar fór yfir reikning prestakallssjóðsins og rakti helstu atriðin í krikjustarfinu á síðasta ári.  Katrín Ólafsdóttir í Hrepphólum lét af störfum sem sóknarnefndarfulltrúi eftir langt og farsælt starf og voru henni afhent blóm af því tilefni og þökkuð heilladrjúg störf í þágu sóknarinnar.  Katrín verður þó áfram meðhjálpari kirkjunnar.  Kosið var um tvo aðalmenn í sóknarnefnd.  Magnús H. Sigurðsson var endurkjörinn til fjögurra ára og ný í sóknarnefnd var svo kostinn Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir.  Magnús formaður sagði að stefnt væri að málningarvinnu við kirkjuna næsta sumar og þá yrði áfram lagt upp með að kirkjugarðurinn yrði sleginn og hirtur í sjálfboðavinnu.  Almennar umræður urðu um kirkjustarfið og helstu framkvæmdir en að því búnu var fundi slitið og gengu fundarmenn þá til kaffidrykkju og var vel í lagt með kaffinu.

3. maí: Guðsþjónustur í Hrepphólakirkju og í Stóra-Núpskirkju

Sunnudaginn 3. maí verða tvær guðsþjónustur í prestakallinu.  Sú fyrri í Hrepphólakirkju kl. 11 og hin síðari í Stóra-Núpskirkju kl. 14.  Kirkjukórar sóknanna syngja undir stjórn organistanna.  Allir velkomnir!

Sumargleði á Ólafsvöllum

Gleðin var svo sannarlega við völd í fjölskylduguðsþjónustu í Ólafsvallakirkju á sumardaginn fyrsta.  Börn úr Þjórsárskóla sungu hressileg lög eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni og einnig vor- og sumarlög.  Kirkjan var þétt setin og ungir sem aldnir tóku virkan þátt í messunni í hreyfisöngvum og sálmasöng.  Flutt var hugvekja og biblíusaga.  Helga Kolbeinsdóttir stýrði barnasöngnum og Magnea Gunnarsdóttir lék undir á píanó.  Frábær byrjun á sumri!

Aðalsafnaðarfundir framundan

Aðalsafnaðarfundir eru framundan í prestakallinu.  Mánudagskvöldið 27. apríl kl. 20:30 verður aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar haldinn í safnaðarheimili Hrepphólakirkju og mánudagskvöldið 4. maí kl. 20:30 verður aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar haldinn í safnaðarheimili Hrunakirkju.  Venjuleg aðalfundarstörf skv. starfsreglum kirkjunnar um sóknarnefndir.  Allir velkomnir!

23. apríl: Sumri fagnað með fjölskylduguðsþjónustu á Ólafsvöllum

Sumri verður fagnað í Hrunaprestakalli með fjölskylduguðsþjónustu í Ólafsvallakirkju á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, kl. 11.  Börn úr Þjórsárskóla syngja gleði- og vorsöngva undir stjórn Helgu Kolbeinsdóttur.  Magnea Gunnarsdóttir leikur undir.  Almennur söngur líka, Biblíusaga og bæn.  Notaleg stund fyrir alla fjölskylduna – allir velkomnir!

Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna í upptökum

Í síðustu viku stóðu kórfélagar í Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna í ströngu því þá fóru fram upptökur á völdum sálmum sr. Valdimars Briem.  Verkefnið hefur verið í undirbúningi í allan vetur undir forystu Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Upptökurnar fóru fram 8. og 9. apríl í Skálholtsdómkirkju og er stefnt að úgáfu geisladisks með vorinu og svo auðvitað að halda tónleika samhliða útgáfunni.  Sr. Valdimar Briem (1848-1930) vígðist til Hrepphóla í Hrunamannahreppi árið 1873 en var síðar einnig settur til að þjóna Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi og fluttist þangað árið 1880 og bjó þar til æviloka.  Þegar lagt var upp með verkefnið þótti vel við hæfi að kirkjukórinn úr sveitinni sem sr. Valdimar þjónaði og var honum alla tíð svo kær myndi koma að sérstakri útgáfu á sálmum hans. Við undirbúning útgáfunnar nýtur kór og organisti aðstoðar Hauks Guðlaugssonar fv. söngmálastjóra kirkjunnar og Hilmars Arnar Agnarssonar organista og kórstjóra.

Páskatími og gleðidagar

Litur páskanna er hvítur, litur gleðinnar.  Páskatíminn varir allt til hvítasunnu og til forna voru dagarnir fjörtíu frá páskum til uppstigningardags, kallaðir gleðidagar.  Nú er að njóta og bíða og sjá hvort vorið fari ekkki senn að minna á sig.  Næsta messa í Hrunaprestakalli verður á sumardaginn fyrsta en þá verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju og sumri fagnað.

Helgihald páskanna

Föstudagurinn langi – 3. apríl:  Passíusálmalestur í Hrepphólakirkju kl. 13-17:30.  Fjöldi lesara á öllum aldri úr prestakallinu annast lesturinn.  Boðið er upp á kaffi í safnaðarheimilinu á meðan á lestri stendur.

Páskadagur – 5. apríl:  Hátíðarmessa kl. 8 í Hrunakirkju.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Morgunkaffi í safnaðarheimili á eftir.  Hátíðarmessa í Hrepphólakirkju kl. 11.  Kirkjukór syngur undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Hátíðarmessa í Stóra-Núpskirkju kl. 14. Kirkjukór syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.

Annar páskadagur – 6. apríl:  Ferming í Ólafsvallakirkju kl. 11.  Kirkjukór syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Fermdir verða Bergsveinn Vilhjálmur Ásmundsson, Arakoti og Einar Ágúst Ingvarsson, Fjalli.

Sjáumst í kirkjunni um páskanna – allir velkomnir!

Lok fermingarundirbúnings

Í gær, 23. mars, var lokafræðslusamvera hjá fermingarbörnunum í safnaðarheimilinu í Hruna.  Framundan er samvera á mánudaginn kemur, 30. mars, kl. 20:30 en á hana eru boðuð bæði foreldrar og fermingarbörn.   Þar verður farið yfir fermingarstörfin í vetur og horft til fermingarathafnanna framundan.  Fyrstu fermingarnar í prestakallinu verða í Ólafsvallakirkju á annan í páskum en síðan verður fermt aftur um hvítasunnu.