Sumargleði á Ólafsvöllum

Gleðin var svo sannarlega við völd í fjölskylduguðsþjónustu í Ólafsvallakirkju á sumardaginn fyrsta.  Börn úr Þjórsárskóla sungu hressileg lög eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni og einnig vor- og sumarlög.  Kirkjan var þétt setin og ungir sem aldnir tóku virkan þátt í messunni í hreyfisöngvum og sálmasöng.  Flutt var hugvekja og biblíusaga.  Helga Kolbeinsdóttir stýrði barnasöngnum og Magnea Gunnarsdóttir lék undir á píanó.  Frábær byrjun á sumri!

Aðalsafnaðarfundir framundan

Aðalsafnaðarfundir eru framundan í prestakallinu.  Mánudagskvöldið 27. apríl kl. 20:30 verður aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar haldinn í safnaðarheimili Hrepphólakirkju og mánudagskvöldið 4. maí kl. 20:30 verður aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar haldinn í safnaðarheimili Hrunakirkju.  Venjuleg aðalfundarstörf skv. starfsreglum kirkjunnar um sóknarnefndir.  Allir velkomnir!

23. apríl: Sumri fagnað með fjölskylduguðsþjónustu á Ólafsvöllum

Sumri verður fagnað í Hrunaprestakalli með fjölskylduguðsþjónustu í Ólafsvallakirkju á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, kl. 11.  Börn úr Þjórsárskóla syngja gleði- og vorsöngva undir stjórn Helgu Kolbeinsdóttur.  Magnea Gunnarsdóttir leikur undir.  Almennur söngur líka, Biblíusaga og bæn.  Notaleg stund fyrir alla fjölskylduna – allir velkomnir!

Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna í upptökum

Í síðustu viku stóðu kórfélagar í Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna í ströngu því þá fóru fram upptökur á völdum sálmum sr. Valdimars Briem.  Verkefnið hefur verið í undirbúningi í allan vetur undir forystu Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Upptökurnar fóru fram 8. og 9. apríl í Skálholtsdómkirkju og er stefnt að úgáfu geisladisks með vorinu og svo auðvitað að halda tónleika samhliða útgáfunni.  Sr. Valdimar Briem (1848-1930) vígðist til Hrepphóla í Hrunamannahreppi árið 1873 en var síðar einnig settur til að þjóna Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi og fluttist þangað árið 1880 og bjó þar til æviloka.  Þegar lagt var upp með verkefnið þótti vel við hæfi að kirkjukórinn úr sveitinni sem sr. Valdimar þjónaði og var honum alla tíð svo kær myndi koma að sérstakri útgáfu á sálmum hans. Við undirbúning útgáfunnar nýtur kór og organisti aðstoðar Hauks Guðlaugssonar fv. söngmálastjóra kirkjunnar og Hilmars Arnar Agnarssonar organista og kórstjóra.

Páskatími og gleðidagar

Litur páskanna er hvítur, litur gleðinnar.  Páskatíminn varir allt til hvítasunnu og til forna voru dagarnir fjörtíu frá páskum til uppstigningardags, kallaðir gleðidagar.  Nú er að njóta og bíða og sjá hvort vorið fari ekkki senn að minna á sig.  Næsta messa í Hrunaprestakalli verður á sumardaginn fyrsta en þá verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju og sumri fagnað.

Helgihald páskanna

Föstudagurinn langi – 3. apríl:  Passíusálmalestur í Hrepphólakirkju kl. 13-17:30.  Fjöldi lesara á öllum aldri úr prestakallinu annast lesturinn.  Boðið er upp á kaffi í safnaðarheimilinu á meðan á lestri stendur.

Páskadagur – 5. apríl:  Hátíðarmessa kl. 8 í Hrunakirkju.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Morgunkaffi í safnaðarheimili á eftir.  Hátíðarmessa í Hrepphólakirkju kl. 11.  Kirkjukór syngur undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Hátíðarmessa í Stóra-Núpskirkju kl. 14. Kirkjukór syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.

Annar páskadagur – 6. apríl:  Ferming í Ólafsvallakirkju kl. 11.  Kirkjukór syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Fermdir verða Bergsveinn Vilhjálmur Ásmundsson, Arakoti og Einar Ágúst Ingvarsson, Fjalli.

Sjáumst í kirkjunni um páskanna – allir velkomnir!

Lok fermingarundirbúnings

Í gær, 23. mars, var lokafræðslusamvera hjá fermingarbörnunum í safnaðarheimilinu í Hruna.  Framundan er samvera á mánudaginn kemur, 30. mars, kl. 20:30 en á hana eru boðuð bæði foreldrar og fermingarbörn.   Þar verður farið yfir fermingarstörfin í vetur og horft til fermingarathafnanna framundan.  Fyrstu fermingarnar í prestakallinu verða í Ólafsvallakirkju á annan í páskum en síðan verður fermt aftur um hvítasunnu.

Héraðsfundur var haldinn í Skógum

Héraðsfundur Suðurprófastsdæmis var haldinn í Skógum undir Eyjafjöllum laugardaginn 21. mars.  Til fundarins eru boðaðir sóknarnefndarmenn og prestar úr prófastsdæminu til að fara yfir ársskýslur sókna og ræða kirkjustarfið á svæðinu.  Málefni kirkjuþings og kirkjunnar almennt voru einnig til umræðu.  Prófastur Suðurprófastsdæmis er sr. Halldóra Þorvarðardóttir í Fellsmúla.  Suðurprófastsdæmi nær frá Þorlákshafnarprestakalli í vestri að Hafnarprestakalli í austri.

Aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar: Kosning og umgengnisreglur fyrir kirkjugarð

Þriðjudagskvöldið 17. mars sl. var aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar haldinn í félagsheimilinu í Árnesi.  Formaður og gjaldkeri fluttu skýrslu síðasta starfsárs og var hún samþykkt samhljóða.  Sóknarprestur ræddi um kirkjustarfið og fjárstreymi í sameiginlegum prestakallssjóði allra sókna í Hrunaprestakalli.  Þá voru kynntar umgengnisreglur um kirkjugarðinn á Stóra-Núpi og var sóknarnefnd falið að ljúka frágangi þeirra.  Kosið var um tvo aðalmenn í sóknarnefnd og tvo varamenn.  Kristjana Heyden, formaður, og Ámundi Kristjánsson gjaldkeri voru kjörin með lófataki sem aðalmenn í sóknarnefnd til næstu fjögurra ára.  Varamenn til fjögurra ára voru kjörnir Árdís Jónsdóttir í Geldingaholti og Helga Kristinsdóttir á Lómsstöðum.  Rætt var um framkvæmdir í Stóra-Núpskirkju sem staðið hafa á síðustu mánuðum og einnig um kirkjustarfið vítt og breitt.  Góður andi ríkti á fundinum og var bjartsýni einkennandi um framtíð sóknar og kirkjustarfs.

Kirkjuskoðun, orgelspuni og leikir í fermingarbarnaferðalagi

Þann 16. mars fór fermingarbarnahópur úr Hrunaprestakalli ásamt presti í ferðalag.  Byrjað var á því að koma við í Tungufellskirkju og síðan lá leiðin í Miðdalskirkju í Laugardal og loks að Vígðulaug á Laugarvatni. Sagan segir að hópur manna hafi verið skírður upp úr Vígðulaug er þeir komu af Alþingi eftir kristnitökuna árið 1000.  Lík Hólafeðga, Jóns Arasonar biskups og sona hans, voru síðan þvegin upp úr sömu laug árið 1550.  Fermingarbörn lauguðu augun upp úr Vígðulaug eins og gert hefur verið í gegnum tíðina til að tryggja góða sjón. Eftir þessar sögustundir var farið í íþróttahúsið í Reykolti og hoppað mikið í klukkutíma, m.a. var farið í brennó og skotbolta.  Að því loknu beið okkar pizzuveisla í Skálholti og að henni lokinni sýndi Jón Bjarnason organisti okkur töfra kirkjuorgelsins.  Síðan var kirkjan skoðuð vandlega og að sjálfssögðu líka farið í kjallarann til að skoða steinkistu Páls biskups og komast í göngin sem liggja út frá kjallara kirkjunnar.  Eftir góðan dag var síðan haldið heim á leið.