Hestamannamessa á Stóra-Núpi 16. ágúst

Sunnudaginn 16. ágúst verður hestamannamessa í Stóra-Núpskirkju kl. 14.  Fólk er hvatt til að koma ríðandi til messu.  Hópreið leggur af stað úr Hrunamannahreppi frá Hruna kl. 11.  Kirkjukórinn leiðir söng í messunni undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Sjáumst í hestamannamessu – allir velkomnir!

Messuhlé og sumarfrí

Messuhlé verður í júlí í Hrunaprestakalli.  Næsta messa er hestamannamessa í Stóra-Núpskirkju 16. ágúst og síðan síðsumarsmessa í Tungufellskirkju viku síðar. Þær messur verða nánar auglýstar síðar.  Helgihald er hvern sunnudag í Skálholtsdómkirkju.  Sóknarprestur verður í sumarleyfi frá 6. júlí og fram yfir verslunarmannahelgi.  Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti stendur vaktina á meðan.  Sími hans er 894-6009.  Gleðilegt sumar!

19. júní – gleðilega hátíð!

Í dag 19. júní fögnum við því að 100 ár eru síðan konur fengu kosningarétt.  Þótt enn sé nokkuð í land í að jafnrétti hafi náðst á hinum ýmsu sviðum samfélagsins þá ber að fagna stórum sigrum í jafnréttisátt.  Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti árið 1980 og það hafði gríðarleg áhrif á jafnréttisbaráttuna.  Í kirkjunni urðu tímamót þegar Agnes M. Sigurðardóttir var kjörinn biskup Íslands, fyrst íslenskra kvenna, fyrir fáeinum árum.  Og nú eru tveir af þremur biskupum landsins konur.  Í þessari viku gerðist það í fyrsta skipti í íslenskri kirkjusögu að tvær konur voru kjörnar til prestsþjónustu í sama prestakallinu, þe í Selfossprestakalli.  Í sóknarnefndum Hrunaprestakalls er gott jafnvægi á milli karla og kvenna, konur eru formenn í tveimur sóknarnefndum og karlar í tveimur.  Áfram skal haldið í jafnréttisátt – gleðilega hátíð!

21. júní: Guðsþjónusta í Steinsholti og í Hrepphólum

Sunnudaginn 21. júní nk. verður útiguðsþjónusta í Steinsholtskirkjugarði kl. 10:30.  Kirkjukór Stóra-Núpskirkju leiðir sálmasöng og sóknarprestur flytur hugvekju og bæn.  Guðsþjónustan er liður í dagskrá ,,Landnámshelgarinnar 19.-21. júní 2015 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi”.  Kaffiveitingar á eftir – allir velkomnir!  Um kvöldið verður síðan kvöldguðsþjónusta í Hrepphólakirkju kl. 20:30.  Umsjón með stundinni hafa sr. Óskar og Stefán organisti.  Notaleg samvera og allir eru hjartanlega velkomnir.  Sjáumst í guðsþjónustum um helgina!

Aðalsafnaðarfundur í Ólafsvallasókn

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar var haldinn í Ólafsvallakirkju þriðjudagskvöldið 9. júní.  Farið var yfir starfsemi sóknarinnar og reikningar síðasta árs samþykktir samhljóða.  Helga Guðlaugsdóttir ritari sóknarnefndar gaf ekki kost á sér til endurkjörs og í stað hennar var kjörin Jóhanna Valgeirsdóttir í Brautarholti.  Guðjón Vigfússon á Húsatóftum var einnig kjörinn áfram í sóknarnefnd til fjögurra ára.  Fyrir í sóknarnefnd situr Snæbjörn Guðmundsson gjaldkeri. Á fundinum var rætt um umhirðu og umgengni í kirkjugarði, og um kirkjustarfið vítt og breitt.  Ný sóknarnefnd kemur síðan saman fljótlega og skiptir með sér verkum.  Var henni m.a. falið af fundinum að ræða við Lionsklúbbinn um að hafa umsjón með umhirðu kirkjugarðsins í sumar.  Fundi var slitið upp úr kl. 22.

7. júní: 1865 messa í Hrunakirkju og kvöldmessa í Ólafsvallakirkju

Sunnudaginn 7. júní kl. 14 verður svokölluð 1865 messa í Hrunakirkju.  Messan er liður í 150 ára afmælisdagskrá kirkjunnar en þar verður sungið messuformið sem var í gildi árið 1865 og sálmavalið tekur einnig mið af því.  Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sóknarpresti.  Forsöngvari er Stefán Þorleifsson og meðhjálpari Helgi Jóhannesson.  Fólk er hvatt til að koma í þjóðlegum klæðum, þjóðbúningi eða lopapeysum, og einnig væri ánægjulegt ef einhverjir kæmu ríðandi eða fótgangandi til messunar.  Allt er þetta hugsað til að fanga stemningu gamla tímans.  Kaffi, pönnukökur, flatkökur og kleinur á eftir.  Allir velkomnir!  Um kvöldið verður svo kvöldmessa í Ólafsvallakirkju kl. 20:30.  Sr. Óskar og Þorbjörg organisti annast stundina.  Almennur söngur, hugvekja og bæn.  Allir velkomnir sömuleiðis.

Æfing fyrir fermingu í Hruna á föstudag

Æfing fyrir ferminguna í Hrunakirkju á hvítasunnudag verður föstudaginn 22. maí kl. 17 í Hrunakirkju.  Mikilvægt er að fermingarbörn mæti öll.  Kyrtlar mátaðir og farið yfir athöfnina.

Fermingar um hvítasunnu

Átta ungmenni verða fermd í Hrunakirkju á hvítasunnudag kl. 13:30.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Prestur er sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson.  Einn piltur verður svo fermdur í Stóra-Núpskirkju á annan í hvítasunnu kl. 11.  Kirkjukór Stóra-Núpskirkju syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar 20. maí

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar verður haldinn miðvikudaginn 20. maí nk. kl. 20:30 í Ólafsvallakirkju.  Venjuleg aðalfundarstörf skv. starfsreglum Kirkjuþings um sóknarnefndir.  Allir velkomnir!

Messa á uppstigningardag í Skálholti

Á uppstingningardag, 14. maí nk., verður messa í Skálholtsdómkirkju.  Þar munu Tvennir tímar, kór eldri borgara í uppsveitunum, syngja ásamt tveimur öðrum kórum.  Um er að ræða sameiginlega messu uppsveitarsóknanna á degi eldri borgara í kirkjunni.  Prestar verða sr. Egill Hallgrímsson, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sr. Birgir Thomsen og sr. Kristján Valur Ingólfsson og mun sá síðastnefndi, vígslubiskupinn, prédika.  Kaffiveitingar verða á eftir í Skálholtsskóla.