Góð heimsókn í jólamessu

http://mail.hruni.is/webmail/api/download/attachment/bd41638f-b1b2-4c13-8d8e-1618a3ba4c66/3183/0-2/IMG_0078.JPG?version=18830&sid=c795918b7301c0eaff9564265171e56bc40f3ea4b31f9d60edc8263fbc290b1b&mode=view

Ólöf Elísabet Árnadóttir, dóttir Elínar Steindórsdóttur og barnabarn Kamillu og sr. Steindórs Briem í Hruna, var viðstödd hátíðarmessuna á jóladag þegar kveikt var á kertunum á jólatrénu góða.  Ólöf man vel eftir trénu í notkun frá uppvaxtarárum sínum heima í Oddgeirshólum.

Hátíðarmessa í Hrunakirkju á jóladag

http://mail.hruni.is/webmail/api/download/attachment/bd41638f-b1b2-4c13-8d8e-1618a3ba4c66/3183/0-4/IMG_0073.JPG?version=18830&sid=c795918b7301c0eaff9564265171e56bc40f3ea4b31f9d60edc8263fbc290b1b&mode=view

Jólatré, það elsta smíðaða sem til er í landinu, prýddi Hrunakirkju í hátíðarmessu kl. 11 á jóladag.  Tréð var smíðað af Jóni Jónssyni í Þverspyrnu árið 1873 fyrir hina danskættuðu prestmaddömu í Hruna, Kamillu, sem var eiginkona sr. Steindórs Briem.  Dóttir þeirra hjóna, Elín Steindórsdóttir Briem, flutti síðar tréð með sér að Oddgeirshólum í Flóa og þar var það í notkun fram undir 1950.  Jólatréð er eign Byggðasafns Árnesinga en stjórnendur þar veittu góðfúslegt leyfi fyrir því að tréð kæmist heim í Hruna um þessi jól í tilefni af 150 ára afmæli kirkjunnar.  Á myndinni má sjá Mörtu, meðhjálpara og formann sóknarnefndar, kveikja á kertum jólatrésins sem eru alls 39 talsins.

Helgihald um jól og áramót

24. des. – aðfangadagur: Guðsþjónusta á aðfangadagskvöld í Stóra-Núpskirkju kl. 23.
25. des. – jóladagur: Hátíðarmessur. Hrunakirkja kl. 11 og Ólafsvallakirkja kl. 14.
Ljósaguðsþjónusta á jóladagskvöld í Hrepphólakirkju kl. 22. Kirkjan lýst upp
með kertaljósum.
31. des. – gamlársdagur: Guðsþjónusta á gamlársdag í Tungufellskirkju kl. 15.
Aftansöngur í Stóra-Núpskirkju kl. 16:30.

3. jan.: Nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 14.

Myndir úr hátíðarmessu í Hruna – fortíð, nútíð og framtíð

 

Við lok afmælisdagskrár í Félagsheimilinu sungu barnakór Flúðaskóla, kirkjukórinn og Tvennir tímar saman sálminn ,,Fögur er foldin”.  Sérlega áhrifarík stund þar sem kynslóðirnar mættust og sungu einum rómi:  ,,kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömu ævigöng.  Gleymist þó aldrei eilífa lagið…”

Myndir úr hátíðarmessu í Hruna – Marta meðhjálpari les upphafsbæn

Aðventukvöldi aflýst

Vegna slæmrar veðurspár er aðventukvöldi sem vera átti í Hrepphólakirkju þann 7. desember aflýst.

Gengið til afmælismessu á 150 ára afmæli Hrunakirkju

Mánudagur 7. desember: Aðventukvöld í Hrepphólakirkju kl. 20:30

Mánudaginn 7. des. nk. verður aðventukvöld í Hrepphólakirkju kl. 20:30.  Fermingarbörn sýna helgileik.  Ræðumaður verður Lýður Árnason héraðslæknir í Laugarási.  Kirkjukórinn syngur aðventu- og jólalög.  Stjórnandi kórsins er Stefán Þorleifsson.  Sóknarprestur flytur ritningarorð og bæn.  Molasopi á eftir í safnaðarheimili.  Allir velkomnir!

Vel heppnuð afmælishátíð í Hruna

Það var fallegur dagur fyrsti sunnudagur í aðventu, frost töluvert og kalt en stillt og sólríkt.  Fjölmenni sótti hátíðarmessu í Hrunakirkju í tilefni 150 ára afmælisins.  Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, flutti prýðilega prédikun og vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Valur Ingólfsson, þjónaði fyrir altari ásamt sóknarpresti.  Prófastur, sr. Halldóra Þorvarðardóttir las lestra og bænir ásamt fyrrum Hrunaklerkum þeim sr. Halldóri Reynissyni og sr. Eiríki Jóhannssyni.  Ný og fagurlega saumuð altarisklæði, sem er gjöf frá Jóhönnu og Haraldi á Hrafnkelsstöðum og Huldu og Gunnari á Selfossi, vöktu verðskuldaða athygli.  Ekki síður var það áhrifarík stund í messunni þegar kirkjukórinn frumflutti sálminn Hrunakirkja sem ortur er af Möggu S. Brynjólfsdóttur í Túnsbergi en lagið samdi Stefán Þorleifsson, organisti.   Fullt var út úr dyrum í kirkjunni og safnaðarheimilið var líka þéttsetið.  Að messu lokinni hófst afmælisdagskrá í Félagsheimilinu á Flúðum.  Kvenfélagið hafði þar lokkað fram kökuhlaðborð af sinni alkunnu snilld sem viðstaddir fengu að njóta.  Marta, formaður sóknarnefndar, flutti greinargott erindi um sögu Hrunastaðar og kirkjunnar ásamt því að fara yfir viðburði og verkefni á afmælisárinu.  Barnakór Flúðaskóla söng nokkur jólalög undir stjórn Helgu Kolbeinsdóttur og sama gerði sönghópur eldri borgara, Tvennir tímar undir stjórn Stefán Þorleifssonar.  Helgi Jóhannesson í Hvammi og Sigþrúður Guðmundsdóttir í Skipholti fluttu afbragðs minningarbrot tengd Hrunakirkju.  Magga S. Brynjólfsdóttir las vígsluljóð sem ort var í tilefni vígslu Hrunakirkju árið 1865.  Ljóðið var áhugaverð heimild því þar var getið um veður á vígsludegi, hvernig ræða prestsins hefði verið og hve margir komu til kirkju. Ræður voru fluttar og gafir færðar.  Sr. Halldóra færði sókninni, fyrir hönd prófastsdæmisins, 150 þúsund krónur í tilefni afmælisins og Magnús H. Sigurðsson, formaður sóknarnefndar Hrepphólasóknar, færði fyrir hönd sinnar sóknar fallega smíðaðan stand fyrir gestabók sem jafnframt geymir söfnunarbauk og verður því komið fyrir í anddyri kirkjunnar á næstunni.  Kristjana H. Gestsdóttir, formaður Stóra-Núpssóknar, flutti kveðju sóknarinnar og aðventuskreytingu sem hún sjálf hafði útbúið.  Tveir síðustu Hrunaprestar, sr. Eiríkur og sr. Halldór, fluttu tölur og rifjuðu upp árin sín í Hruna ásamt því að flytja söfnuðinum heillaóskir og góð orð til framtíðar.  Þá steig einnig í pontu Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Bjössi í Hruna, sem er sonur sr. Sveinbjarnar.  Hann rifjaði upp skemmtileg atvik frá bernskuárunum í Hruna og hrósaði sveitungum fyrir gott samfélag.  Undir lok samkomunnar steig á stokk fríður hópur söngfólks, Tvennir tímar, kirkjukórinn og barnakór Flúðaskóla – fortíð, nútíð og framtíð – og sungu þau saman sálminn Fögur er foldin.  Það var magnaður flutningur.  Að lokum sleit sr. Óskar samkomunni.  Dagur var að kvöldi kominn sem lengi mun geymast í minningu þeirra sem upplifðu.

Hrepphólar: Kveikt á ljósum í kirkjugarði og helgistund laugardaginn 28. nóvember

Eftir hádegi laugardaginn 28. nóvember nk. verður hægt að kveikja á leiðiskrossum í Hrepphólakirkjugarði og verður aðstoð þar fúslega veitt.  Helgistund fer fram í kirkjunni kl. 15.  Molasopi í safnaðarheimilinu.  Notaleg stund í anddyri aðventunnar – allir velkomnir!