Úr kirkjubókum 2015

Í kirkjubókum 2015 í Hrunaprestakalli má sjá að sóknarprestur hefur annast 28 skírnir á árinu (þar af fóru 14 fram í prestakallinu).  Hjónavígslur voru þrettán talsins (þar af fóru ellefu fram í prestakallinu).  Útfarir á árinu 2015 voru samtals þrettán en þar af voru þrjár utan prestakallsins.  Fermingarbörn vorið 2015 voru þrettán talsins.

24. janúar: Fjölskylduguðsþjónusta á Ólafsvöllum og kvöldmessa í Hruna

Sunnudaginn 24. janúar verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11.  Biblíusaga, söngur, hugvekja og bæn.  Samvera fyrir alla fjölskylduna.  Allir velkomnir.  Um kvöldið verður síðan kvöldmessa með léttri tónlist kl. 20:30 í Hrunakirkju.  Þar mun Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna, ásamt Karli Hallgrímssyni tónlistarmanni, flytja lög af nýútkomnum diski þess síðarnefnda, Draumur um koss.  Ritningarorð, hugvekja og bæn.  Í kvöldmessunum er messuformið brotið eilítið upp og áhersla lögð á létta og notalega stemningu.  Undirleikari og stjórnandi söngs er Stefán Þorleifsson.  Sjáumst í kvöldmessu – allir velkomnir!

Kórar hafa ,,kirkjuskipti” á þessu misseri

Á sameiginlegum fundi sóknarnefnda í Hrunaprestakalli sem haldinn var í Árnesi nú í byrjun árs var dagskrá helgihaldsins á þessu misseri rædd og skoðuð.  Dagskráin er nokkuð hefðbundin miðað við síðasta ár en hún nær yfir vormisserið, sumarið og fram í byrjun september.  Ákveðið er að kirkjukórarnir í prestakallinu hafi kirkjuskipti einu sinni á þessu misseri, þannig mun Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna syngja í kvöldmessu með léttri tónlist kl. 20:30 í Ólafsvallakirkju þann 21. febrúar nk.  Síðan mun Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna syngja sálma sr. Valdimars Briem í messu í Hrepphólakirkju sunnudaginn 10. apríl kl. 14.  Lokahátíð barnastarfs verður í fjölskylduguðsþjónustu í Ólafsvallakirkju á sumardaginn fyrsta, 21. apríl kl. 11.  Dagskrá helgihaldsins verður dreift í öll hús í prestakallinu á næstu dögum.

Þrettándinn

Í dag, 6. janúar, er þrettándinn, þrettándi dagur jóla sem jafnframt markar lok hátíðarinnar.  Kirkjusókn um hátíðarnar var hin prýðilegasta og ástæða til að þakka þeim fjölmörgu sem komu til kirkju nú um jól og áramót.  Næstu messur í Hrunaprestakalli verða þann 24. janúar nk.  En þá verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11 og svo kvöldmessa með léttri tónlist í Hrunakirkju kl. 20:30.  Dagskrá helgihaldsins á vormisseri og fram á haust verður send inn í hvert hús í prestakallinu á næstunni.  Er þess vænst að hún fái sinn vísa stað á ísskáp heimilisins eða minnistöflu.

Gleðilegt nýtt ár 2016 – sjáumst í nýársmessu 3. janúar kl. 14

Nýársmessa verður í Hrepphólakirkju sunnudaginn 3. janúar kl. 14.  Kirkjukórinn leiðir söng. Organisti er Stefán Þorleifsson.  Molasopi í safnaðarheimili á eftir.  Komum saman og heilsum nýju ári í nýarsmessu – allir velkomnir!

Áramót: Tvær messur á gamlársdag og nýársmessa 3. janúar

Á gamlársdag verður árleg guðsþjónusta í Tungufellskirkju kl. 15.  Forsöngvari verður Stefán Þorleifsson.  Aftansöngur verður í Stóra-Núpskirkju kl. 16:30 á gamlársdag.  Kirkjukór leiðir söng og organisti er Þorbjörg Jóhannsdóttir.  Afi og barnabarn hans lesa ritingarorð.  Sunnudaginn 3. janúar verður síðan nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 14.  Kirkjukór leiðir söng og organisti er Stefán Þorleifsson.  Sjáumst í kirkjunni um áramót!  Allir velkomnir!

Góð heimsókn í jólamessu

http://mail.hruni.is/webmail/api/download/attachment/bd41638f-b1b2-4c13-8d8e-1618a3ba4c66/3183/0-2/IMG_0078.JPG?version=18830&sid=c795918b7301c0eaff9564265171e56bc40f3ea4b31f9d60edc8263fbc290b1b&mode=view

Ólöf Elísabet Árnadóttir, dóttir Elínar Steindórsdóttur og barnabarn Kamillu og sr. Steindórs Briem í Hruna, var viðstödd hátíðarmessuna á jóladag þegar kveikt var á kertunum á jólatrénu góða.  Ólöf man vel eftir trénu í notkun frá uppvaxtarárum sínum heima í Oddgeirshólum.

Hátíðarmessa í Hrunakirkju á jóladag

http://mail.hruni.is/webmail/api/download/attachment/bd41638f-b1b2-4c13-8d8e-1618a3ba4c66/3183/0-4/IMG_0073.JPG?version=18830&sid=c795918b7301c0eaff9564265171e56bc40f3ea4b31f9d60edc8263fbc290b1b&mode=view

Jólatré, það elsta smíðaða sem til er í landinu, prýddi Hrunakirkju í hátíðarmessu kl. 11 á jóladag.  Tréð var smíðað af Jóni Jónssyni í Þverspyrnu árið 1873 fyrir hina danskættuðu prestmaddömu í Hruna, Kamillu, sem var eiginkona sr. Steindórs Briem.  Dóttir þeirra hjóna, Elín Steindórsdóttir Briem, flutti síðar tréð með sér að Oddgeirshólum í Flóa og þar var það í notkun fram undir 1950.  Jólatréð er eign Byggðasafns Árnesinga en stjórnendur þar veittu góðfúslegt leyfi fyrir því að tréð kæmist heim í Hruna um þessi jól í tilefni af 150 ára afmæli kirkjunnar.  Á myndinni má sjá Mörtu, meðhjálpara og formann sóknarnefndar, kveikja á kertum jólatrésins sem eru alls 39 talsins.

Helgihald um jól og áramót

24. des. – aðfangadagur: Guðsþjónusta á aðfangadagskvöld í Stóra-Núpskirkju kl. 23.
25. des. – jóladagur: Hátíðarmessur. Hrunakirkja kl. 11 og Ólafsvallakirkja kl. 14.
Ljósaguðsþjónusta á jóladagskvöld í Hrepphólakirkju kl. 22. Kirkjan lýst upp
með kertaljósum.
31. des. – gamlársdagur: Guðsþjónusta á gamlársdag í Tungufellskirkju kl. 15.
Aftansöngur í Stóra-Núpskirkju kl. 16:30.

3. jan.: Nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 14.

Myndir úr hátíðarmessu í Hruna – fortíð, nútíð og framtíð

 

Við lok afmælisdagskrár í Félagsheimilinu sungu barnakór Flúðaskóla, kirkjukórinn og Tvennir tímar saman sálminn ,,Fögur er foldin”.  Sérlega áhrifarík stund þar sem kynslóðirnar mættust og sungu einum rómi:  ,,kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömu ævigöng.  Gleymist þó aldrei eilífa lagið…”