11. október: Guðsþjónusta á Ólafsvöllum og kvöldmessa í Hrepphólum

Sunnudaginn 11. október nk. verður guðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 14.  Kirkjukórinn leiðir sönginn undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Um kvöldið verður síðan kvöldmessa kl. 20 í Hrepphólakirkju.  Þar verður messuformið brotið eilítið upp, kórinn flytur létt sálmalög í bland við dægurlög.  Stjórnandi og undirleikari er Stefán Þorleifsson.  Njótum þess að koma saman í kirkjunni – sjáumst!

Fyrsti fermingarfræðslutíminn mánudaginn 7. október

Fyrsti fermingarfræðslutíminn í vetur verður í safnaðarheimilinu í Hruna nk. mánudag 7. október frá kl. 15-17.  Skólabíll kemur með hópinn upp í Hruna en foreldrar sjá svo um að sækja börnin að fræðslu lokinni.  Fermingarfræðslutímar til áramóta verða alla mánudaga í október og nóvember.

Sunnudagur 27. september: Tvennir tímar í guðsþjónustu í Hruna

Tvennir tímar, sönghópur eldri borgara í uppsveitunum, verða í aðalhlutverki í guðsþjónustu í Hrunakirkju sunnudaginn 27. september.  Söngurinn í guðsþjónustunni verður borinn uppi af Tvennum tímum en stjórnandinn er Stefán Þorleifsson sem jafnframt er organisti.  Þá munu fulltrúar eldri borgara lesa ritningarlestra og boðið verður upp á molasopa í safnaðarheimilinu á eftir.  Allir eru hjartanlega velkomnir!

Réttir framundan og næsta messa með Tvennum tímum

Nú eru réttir framundan.  Hrunaréttir og Skaftholtsréttir verða föstudaginn 11. september og svo Skeiðaréttir laugardaginn 12. september.  Þetta eru hátíðisdagar í okkar samfélagi, mannamót af bestu gerð og afbragðs skemmtun.   Næsta messa í prestakallinu verður í Hruna sunnudaginn 27. september nk. kl. 14.  Þar mun sönghópur eldri borgara úr uppsveitunum, Tvennir tímar, leiða messusönginn.  Messudagskrá fyrir haustmisserið og fram yfir áramót verður dreift inn á öll heimili upp úr miðjum september.  Gleðilega réttardaga og góða skemmtun!

Laugardagur 5. september: Uppskerumessa og fjölskylduhátíð í Hruna kl. 11

Uppskerumessa kl. 11 laugardaginn 5. september í Hrunakirkju.  Fjölskylduhátíð þar sem fermingarbörn næsta vors munu aðstoða.  Félagar úr kirkjukórnum leiða sönginn.  Stefán Þorleifsson er organisti.  Farið í leiki á eftir, m.a. í pokahlaup og reiptog.  Molasopi og grillaðar pylsur fyrir alla viðstadda.  Fjölskylduhátíð – allir hjartanlega velkomnir!

Kynningarfundur vegna fermingarfræðslu 25. ágúst

Kynningarfundur fyrir foreldra og væntanleg fermingarbörn næsta vors verður í safnaðarheimilinu í Hruna þriðjudagskvöldið 25. ágúst kl. 20:30.  Rætt um skipulag fræðslunnar og fermingarundirbúninginn til vors.  Þá verða einnig ræddir fermingardagar næsta vors.

23. ágúst: Síðsumarsmessa í Tungufelli kl. 14

Árleg síðsumarsmessa verður í Tungufellskirkju sunnudaginn 23. ágúst kl. 14.  Stefán Þorleifsson verður forsöngvari og fer fyrir almennum safnaðarsöng.  Fólk er hvatt til að koma í þjóðlegum klæðum til messunnar.  Kaffihressing á eftir.  Allir velkomnir!  Sóknarprestur

Hestamannamessa á Stóra-Núpi 16. ágúst

Sunnudaginn 16. ágúst verður hestamannamessa í Stóra-Núpskirkju kl. 14.  Fólk er hvatt til að koma ríðandi til messu.  Hópreið leggur af stað úr Hrunamannahreppi frá Hruna kl. 11.  Kirkjukórinn leiðir söng í messunni undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Sjáumst í hestamannamessu – allir velkomnir!

Messuhlé og sumarfrí

Messuhlé verður í júlí í Hrunaprestakalli.  Næsta messa er hestamannamessa í Stóra-Núpskirkju 16. ágúst og síðan síðsumarsmessa í Tungufellskirkju viku síðar. Þær messur verða nánar auglýstar síðar.  Helgihald er hvern sunnudag í Skálholtsdómkirkju.  Sóknarprestur verður í sumarleyfi frá 6. júlí og fram yfir verslunarmannahelgi.  Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti stendur vaktina á meðan.  Sími hans er 894-6009.  Gleðilegt sumar!

19. júní – gleðilega hátíð!

Í dag 19. júní fögnum við því að 100 ár eru síðan konur fengu kosningarétt.  Þótt enn sé nokkuð í land í að jafnrétti hafi náðst á hinum ýmsu sviðum samfélagsins þá ber að fagna stórum sigrum í jafnréttisátt.  Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti árið 1980 og það hafði gríðarleg áhrif á jafnréttisbaráttuna.  Í kirkjunni urðu tímamót þegar Agnes M. Sigurðardóttir var kjörinn biskup Íslands, fyrst íslenskra kvenna, fyrir fáeinum árum.  Og nú eru tveir af þremur biskupum landsins konur.  Í þessari viku gerðist það í fyrsta skipti í íslenskri kirkjusögu að tvær konur voru kjörnar til prestsþjónustu í sama prestakallinu, þe í Selfossprestakalli.  Í sóknarnefndum Hrunaprestakalls er gott jafnvægi á milli karla og kvenna, konur eru formenn í tveimur sóknarnefndum og karlar í tveimur.  Áfram skal haldið í jafnréttisátt – gleðilega hátíð!