Sjöviknafasta eða langafasta hefst með öskudegi sem í ár ber upp á 18. febrúar.  Þá eru fjörutíu dagar til páska sem minna á dagana 40 sem Jesús fastaði í eyðimörkinni.  Áður fyrr var bannað að neyta kjöts á föstunni og eru bolludagur og sprengidagur leifar kjötkveðjuhátíða fyrir föstubyrjun.  Fastan er tími sjálfsprófunar, til þess ætlaður að fólk horfi inn á við, dýpki og þroski trúarlífið.  Um aldir hafa passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar verið þjóðinni leiðsögn á föstutímanum.