Á þessu ári, 2015, verður haldið upp á 150 ára afmæli Hrunakirkju en kirkjan var vígð á fyrsta sunnudegi í aðventu árið 1865. Sérstök afmælisnefnd var skipuð af sóknarnefnd kirkjunnar til að undirbúa afmælið. Í henni eiga sæti Marta E. Hjaltadóttir, Helgi Jóhannesson, Guðrún Sveinsdóttir, Anna Matthíasdóttir, Magga Brynjólfsdóttir og sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Ákveðið hefur verið að efna til nokkurra viðburða á árinu í tilefni afmælisins. Þeir verða sem hér segir:

1. mars:  Æskulýðsmessa kl. 11.  Ungt fólk úr prestakallinu mun bera uppi messuna í tali og tónum.

7. júní:  1865-messa kl. 14.  Hátíðarmessa þar sem fylgt verður messuforminu frá 1865 og sálmavalið mun líka taka mið af því.  Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, þjónar ásamt sóknarpresti.  Fólk hvatt til að koma í þjóðlegum klæðum til messu og ríðandi þeir sem geta.

5. september:  Uppskeruhátíð kl. 11.  Hefst með fjölskylduguðsþjónustu en síðan munu börn og fullorðnir etja kappi í leikjum á túninu við kirkjuna.  Boðið verður upp á grillaðar pylsur og svaladrykk.

29. nóvember:  Hátíðarmessa kl. 14 á fyrsta sunnudegi í aðventu.  Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prédikar.  Afmælisdagskrá og kaffi í félagsheimilinu á Flúðum á eftir.

Viðburðirnir verða nánar kynntir þegar að þeim kemur.  Þá hefur afmælisnefndin í hyggju að opna sérstakan afmælisreikning þar sem einstaklingum, fyrirtækjum og velunnurum gefst kostur á að styrkja afmælisverkefni sem ætlunin er að ráðast í á árinu og verður það einnig kynnt nánar fljótlega.