Í gær, 18. janúar, var kvöldmessa í Hrunakirkju.  Messan var óvenjuleg að því leyti að kirkjukórinn sem venjulega stendur inn í kór kirkjunnar sat nú á kirkjubekkjunum og söng þaðan.  Sungin voru þekkt dægurlög í bland við rótgróna sálma.  Kórfélagar lásu lestra, sjálfvalda, sem hæfðu einstaklega vel andrúminu og sömuleiðis lásu kórfélagar almennu kirkjubænina með presti.  Sunneva Sól Árnadóttir söng einsöng og gerði það fallega.  Áhrifaríkt var þegar kórinn söng sálm sr. Hallgríms Péturssonar; Nú vil ég enn í nafni þínu, í lok messunnar.  En fyrsta erindið var sungið af einni manneskju og svo bættust við fleiri og fleiri raddir inn í sönginn eftir því sem leið á sálminn.   Einstaklega ljúf stund í kirkjunni sem margir fengu að njóta.