Sóknarnefnd

Breytingar í sóknarnefndum í Hrunaprestakalli

Á nýafstöðnum aðalsafnaðarfundum sókna í Hrunaprestakalli urðu lítilsháttar breytingar á skipan sóknarnefndarfólks.  Guðjón Vigfússon lét af störfum eftir langt og farsælt starf sem formaður sóknarnefndar Ólafsvallasóknar en við formennskunni tók Jóhanna Valgeirsdóttir.  Harpa Dís Harðardóttir kemur ný inn í sóknarnefnd Ólafsvallasóknar og er ritari.  Að auki er í nefndinni Ásmundur Lárusson gjaldkeri.   Þá er Árdís Jónsdóttir ritari sóknarnefndar Stóra-Núpssóknar og starfar við hlið Kristjönu H. Gestsdóttur formanns og Ámunda Kristjánssonar gjaldkera.  Sóknarnefnd Hrepphólasóknar er óbreytt:  Magnús H. Sigurðsson, formaður, Arnfríður Jóhannsdóttir gjaldkeri og Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir ritari.  Guðjón Bjarnar Gunnarsson kemur nýr inn í sóknarnefnd Hrunasóknar við hlið Mörtu E. Hjaltadóttur formanns, Jóhönnu B. Ingólfsdóttur gjaldkera, Jóhanns Marelssonar ritara og Lilju Helgadóttur sóknarnefndarfullrúa.

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar 21. maí

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar verður haldinn í Bókasafninu í Brautarholti þriðjudaginn 21. maí nk. kl. 20.  Venjuleg aðalfundarstörf.  Ma þarf að kjósa um tvo aðalmenn í sóknarnefnd og tvo til vara.  Þá þarf að taka afstöðu til umfangsmikilla viðhaldsframkvæmda á kirkjunni.  Sóknarfólk hvatt til að mæta.

Sóknarnefnd Ólafsvallasóknar

Aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar flyst yfir á 8. maí!

Aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar (áður auglýstur mánudaginn 7. maí) verður þriðjudaginn 8. maí kl. 20 í safnaðarheimili Hrepphólakirkju.  Venjuleg aðalfundarstörf skv. starfsreglum kirkjunnar um sóknarnefndir.  Sóknarfólk hvatt til að mæta.  Sóknarprestur og sóknarnefnd

Aðalsafnaðarfundir framundan

Framundan eru aðalsafnaðarfundir sókna í prestakallinu.  Þar verða reikningar viðkomandi sóknar og kirkjugarðs kynntir og bornir undir atkvæði.  Sömuleiðis er rætt um starfsemi síðasta árs og horft til starfs og framkvæmda á næsta ári.  Dagskrá aðalsafnaðarfundar (kosningar, reikningar, skýrslur, önnur mál) er að öðru leyti í samræmi við starfsreglur kirkjunnar um sóknarnefndir.

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar verður í bókasafninu í Brautarholti þriðjudaginn 24. apríl kl. 20.

Aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar verður í Árnesi fimmtudaginn 26. apríl kl. 20.

Aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar verður í safnaðarheimilinu í Hruna sunnudaginn 29. apríl kl. 20:30.

Aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar verður í safnaðarheimilinu í Hrepphólum mánudaginn 7. maí kl. 20.

 

Sóknarfólk er eindregið hvatt til að mæta á fundina en þangað eru auðvitað allir velkomnir.

Sóknarnefndir og sóknarprestur

Aðalsafnaðarfundur í Ólafsvallasókn

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar var haldinn í Ólafsvallakirkju þriðjudagskvöldið 9. júní.  Farið var yfir starfsemi sóknarinnar og reikningar síðasta árs samþykktir samhljóða.  Helga Guðlaugsdóttir ritari sóknarnefndar gaf ekki kost á sér til endurkjörs og í stað hennar var kjörin Jóhanna Valgeirsdóttir í Brautarholti.  Guðjón Vigfússon á Húsatóftum var einnig kjörinn áfram í sóknarnefnd til fjögurra ára.  Fyrir í sóknarnefnd situr Snæbjörn Guðmundsson gjaldkeri. Á fundinum var rætt um umhirðu og umgengni í kirkjugarði, og um kirkjustarfið vítt og breitt.  Ný sóknarnefnd kemur síðan saman fljótlega og skiptir með sér verkum.  Var henni m.a. falið af fundinum að ræða við Lionsklúbbinn um að hafa umsjón með umhirðu kirkjugarðsins í sumar.  Fundi var slitið upp úr kl. 22.

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar 20. maí

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar verður haldinn miðvikudaginn 20. maí nk. kl. 20:30 í Ólafsvallakirkju.  Venjuleg aðalfundarstörf skv. starfsreglum Kirkjuþings um sóknarnefndir.  Allir velkomnir!

Aðalsafnaðarfundur í Hrunasókn

Aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar var haldinn í safnaðarheimilinu í Hruna mánudagskvöldið 4. maí kl. 20:30.  Marta Esther Hjaltadóttir fór yfir starfsemi sóknarinnar á síðasta ári og Jóhanna Bríet Ingólfsdóttir gjaldkeri lagði fram reikninga sóknarinnar og voru þeir samþykktir.  Þá las ritari, Þorleifur Jóhannesson, fundargerð síðasta aðalsafnaðarfundar.  Sr. Óskar kynnti reikninga prestakallssjóðs og ræddi helstu þætti í kirkjustarfi sóknar og prestakalls.  Kosið var um tvo aðalmenn í sóknarnefnd til fjögurra ára og voru þær Marta og Jóhanna kosnar með lófataki.  Tveir nýir fulltrúar voru kjörnir í varasóknarnefnd til fjögurra ára, þau Aðalsteinn Þorgeirsson á Hrafnkelsstöðum og Valný Guðmundsdóttir í Skipholti.  Almennar umræður voru um starfið í sókninni framundan, m.a. um fyrirhugaðar framkvæmdir við kirkjugarð en hlaða á upp nýjan grjótvegg þar á þessu sumri, þá var einnig rætt um helstu viðburði á 150 ára afmæli kirkjunnar á þessu ári.  Einnig urðu umræður um hvort kirkjan eigi alltaf að vera opin eins og verið hefur.  Sömuleiðis urðu umræður um varðveislu ýmissa gripa í eigu kirkjunnar sem bæði eru í krikjunni sjálfri og í safnaðarheimilinu.  Frekari umræður og úrlausn voru falin sóknarnefnd.  Boðið var upp á myndarlegar kaffiveitingar á fundinum en fundarmenn voru hátt á annan tuginn.

Aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar

Mánudaginn 27. apríl sl. var aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar haldinn í safnaðarheimili kirkjunnar.  Magnús H. Sigurðsson formaður sóknarnefndar fór yfir helstu starfsþætti síðasta árs og Arnfríður Jóhannsdóttir gjaldkeri lagði fram reikninga sóknarinnar sem samþykktir voru samhljóða.  Sr. Óskar fór yfir reikning prestakallssjóðsins og rakti helstu atriðin í krikjustarfinu á síðasta ári.  Katrín Ólafsdóttir í Hrepphólum lét af störfum sem sóknarnefndarfulltrúi eftir langt og farsælt starf og voru henni afhent blóm af því tilefni og þökkuð heilladrjúg störf í þágu sóknarinnar.  Katrín verður þó áfram meðhjálpari kirkjunnar.  Kosið var um tvo aðalmenn í sóknarnefnd.  Magnús H. Sigurðsson var endurkjörinn til fjögurra ára og ný í sóknarnefnd var svo kostinn Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir.  Magnús formaður sagði að stefnt væri að málningarvinnu við kirkjuna næsta sumar og þá yrði áfram lagt upp með að kirkjugarðurinn yrði sleginn og hirtur í sjálfboðavinnu.  Almennar umræður urðu um kirkjustarfið og helstu framkvæmdir en að því búnu var fundi slitið og gengu fundarmenn þá til kaffidrykkju og var vel í lagt með kaffinu.

Aðalsafnaðarfundir framundan

Aðalsafnaðarfundir eru framundan í prestakallinu.  Mánudagskvöldið 27. apríl kl. 20:30 verður aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar haldinn í safnaðarheimili Hrepphólakirkju og mánudagskvöldið 4. maí kl. 20:30 verður aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar haldinn í safnaðarheimili Hrunakirkju.  Venjuleg aðalfundarstörf skv. starfsreglum kirkjunnar um sóknarnefndir.  Allir velkomnir!

Héraðsfundur var haldinn í Skógum

Héraðsfundur Suðurprófastsdæmis var haldinn í Skógum undir Eyjafjöllum laugardaginn 21. mars.  Til fundarins eru boðaðir sóknarnefndarmenn og prestar úr prófastsdæminu til að fara yfir ársskýslur sókna og ræða kirkjustarfið á svæðinu.  Málefni kirkjuþings og kirkjunnar almennt voru einnig til umræðu.  Prófastur Suðurprófastsdæmis er sr. Halldóra Þorvarðardóttir í Fellsmúla.  Suðurprófastsdæmi nær frá Þorlákshafnarprestakalli í vestri að Hafnarprestakalli í austri.