Safnaðarstarf

Nýtt netfang sóknarprests

Sr. Óskar er kominn með nýtt netfang:  hrunaprestur@gmail.com.

Dagskrá helgihaldsins fram yfir áramót liggur fyrir

Á sameiginlegum fundi allra sóknarnefnda í prestakallinu sem haldinn var í Hruna mánudagskvöldið 28. ágúst sl. var m.a. gengið frá dagskrá helgihaldsins á haustmisseri og fram yfir áramót.  Dagskrána má nálgast undir liðnum ,,Safnaðarstarf” hér að ofan  eða hér hægra megin á síðunni undir liðnum ,,Nýtt efni”.

Messuhlé og sumarleyfi

Messuhlé verður í Hrunaprestakalli í júlí. Næsta messa verður í Tungufellskirkju sunnudaginn 13. ágúst kl. 14.   Sóknarprestur verður í sumarleyfi í júlímánuði og fram yfir verslunarmannahelgi.  Sr. Egill Hallgrímsson í Skálholti leysir af á meðan.  Sími hans er 8946009.  Neyðarsími presta í Árnessýslu er tengdur lögreglu og Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Aðalsafnaðarfundur á Ólafsvöllum

Aðalsafnaðarfundur Ólafsvallasóknar var haldinn í Ólafsvallakirkju þriðjudaginn 16. maí kl. 20.  Snæbjörn Guðmundsson var endurkjörinn í sóknarnefnd og var Ásmundur Lárusson kjörinn varamaður.   Í kjörnefnd Hrunaprestakalls voru kjörin Guðjón Vigfússon og Jóhanna Valgeirsdóttir. Samþykktar voru umgengnisreglur fyrir kirkjugarðinn og eins var sóknarnefnd falið að halda áfram að undirbúa framkvæmdir við kirkjuna, sem snúa einkum að því að skipta um járn á veggjum og þaki.  Framkvæmdirnar verða unnar í samráði við Minjastofnun.  Þá var samþykkt á fundinum að stefna að því að árlegt aðventukvöld verði framvegis alltaf í Árnesi, en ekki til skiptis í Árnesi og í Brautarholti.  Margt fleira tengt kirkju og kristni kom einnig til umræðu.

Aðalsafnaðarfundir framundan í Hrunamannahreppi

Aðalsafnaðarfundir eru framundan þar sem farið er yfir starf og rekstur síðasta árs og horft til framtíðar.  Aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar verður haldinn í safnaðarheimili kirkjunnar mánudagskvöldið 27. mars nk. kl. 20.  Aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar verður haldinn í safnaðarheimili kirkjunnar mánudagskvöldið 10. apríl kl. 20.  Venjuleg aðalfundarstörf.  Almennar umræður og kaffiveitingar.  Allir hjartanlega velkomnir!

Aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar

Aðalsafnaðarfundur Hrepphólasóknar verður haldinn í safnaðarheimili kirkjunnar mánudaginn 27. mars nk. kl. 20.  Venjuleg aðalfundarstörf.  Allir velkomnir.  Sóknarnefnd Hrepphólasóknar.

Sameiginlegur fundur sóknarnefnda, organista og prests

Sameiginlegur fundur allra sóknarnefnda í prestakallinu var haldinn þann 9. janúar í Brautarholti. Þar voru línur lagðar fyrir starfið fram á sumar og rætt um helstu framkvæmdir framundan í kirkjunum. Organistar sögðu frá kórstarfi og sönglífi í sóknunum. Hér var hugsjóna- og dugnaðarfólk á ferð sem vill kirkjunni sinni allt það besta og ekkert minna en það! Og veitingarnar…eigum við eitthvað að ræða þær? Svakalegar!

9. des: Jólatónleikar í Skálholti

Föstudagskvöldið 9. desember nk. kl. 20 verða jólatónleikar í Skálholtskirkju. Þar mun Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna syngja undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur og einnig Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar.  Einsöngvarar verða Egill Árni Pálsson og Þóra Gylfadóttir.  Miðaverð 2500 kr.  Allir velkomnir!

Leikskólaheimsóknum prests lokið á þessu misseri

Síðastliðnar vikur hefur prestur heimsótt börnin í leikskólum prestakallsins, Undralandi og Leikholti.  Mikið er sungið í þessum stundum og svo er gefið pláss fyrir eina stutta sögu.  Í síðustu tveimur heimsóknum kveiktum við á kertum á aðventukransinum og tókum létt spjall um jólin og jólaundirbúninginn.  Sannkallaðar gleði- og gæðastundir.

Fermingarbörn safna fyrir Hjálparstarf kirkjunnar – baukar á ferð á Flúðum

Mánudaginn 31. október verða fermingarbörn í Hrunaprestakalli á ferð á Flúðum með söfnunarbauka frá Hjálparstarfi kirkjunnar.  Þannig taka þau þátt í landssöfnun meðal allra fermingarbarna á landinu.  Verkefnið sem fermingarbörnin safna fyrir snýr að því að bæta aðgengi að hreinu vatni hjá bræðrum og okkar og systrum í Eþíópíu og Úganda.  Fermingarbörnin munu ganga í hús og fyrirtæki á Flúðum og verða auk þess í búðinni með söfnunarbauk.  Söfnunin fer fram á milli klukkan 16 og 18 á mánudaginn.  Takið vel á móti þeim!  Og þið sem eruð á facebook, endilega deilið þessari frétt.