Helgihald

Fólk framtíðarinnar messar í Hruna!

Æskulýðsdagur kirkjunnar er sunnudaginn 1. mars.  Þá verður messa unga fólksins í Hrunakirkju.  Fólk framtíðarinnar, nemendur úr 9. og 10. bekk Flúðaskóla, annast messuna í tali og tónum.  Við fáum að sjá nýja uppfærslu á Dansinum í Hruna, heyrum hvað unga fólkið okkar er að hugsa, hverjar eru bænir þess, óskir og draumar.  Hlustum á efnilegt tónlistarfólk – söng og spil.  Sem sagt:  Taktu frá tímann fyrir hádegi á sunnudaginn.  Messan hefst stundvíslega kl. 11 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Þess má geta að messa unga fólksins er fyrsti viðburðurinn af nokkrum í afmælisdagskrá í tilefni af 150 ára afmæli Hrunakirkju.

Fasta gengur í garð

Sjöviknafasta eða langafasta hefst með öskudegi sem í ár ber upp á 18. febrúar.  Þá eru fjörutíu dagar til páska sem minna á dagana 40 sem Jesús fastaði í eyðimörkinni.  Áður fyrr var bannað að neyta kjöts á föstunni og eru bolludagur og sprengidagur leifar kjötkveðjuhátíða fyrir föstubyrjun.  Fastan er tími sjálfsprófunar, til þess ætlaður að fólk horfi inn á við, dýpki og þroski trúarlífið.  Um aldir hafa passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar verið þjóðinni leiðsögn á föstutímanum.

Hrunakirkja 150 ára: Messa unga fólksins 1. mars

Undirbúningur er þegar hafinn fyrir fyrsta viðburðinn á 150 ára afmælisári Hrunakirkju.  Nemendur í 9. og 10. bekk Flúðaskóla í samráði við umsjónarkennara og sóknarprest undirbúa ,,Messu unga fólksins” sem verður sunnudaginn 1. mars kl. 11.  Þar mun unga fólkið bera uppi heila messu í tali og tónum.  Takið morguninn frá – enginn ætti að missa af þessum viðburði!

15. febrúar: Fjölskylduguðsþjónusta í Hrepphólum og messa á Ólafsvöllum

Sunnudaginn 15. febrúar verður fjölskylduguðsþjónusta í Hrepphólakirkju kl. 11.  Biblíusaga, mikill söngur og notaleg samvera.  Síðan verður messa kl. 14 í Ólafsvallakirkju þar verður Biblíunnar minnst í tali og tónum.  Organisti er Þorbjörg Jóhannsdóttir og kirkjukórinn leiðir sönginn.  Sjáumst í kirkjunni!  Allir velkomnir.

Biblíudagurinn

Næsta sunnudag 8. febrúar er Biblíudagurinn.  Þá er hin helga bók í brennidepli og áhrif hennar í samtímanum.  Í Hrunaprestakalli verður haldið upp á Biblíudaginn í messu sunnudaginn 15. febrúar í Ólafsvallakirkju.  Á þessu ári fær Biblíudagurinn enn meiri athygli en oft áður því haldið er upp á 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags.  Það var stofnað árið 1815.

Hrunakirkja 150 ára

Á þessu ári, 2015, verður haldið upp á 150 ára afmæli Hrunakirkju en kirkjan var vígð á fyrsta sunnudegi í aðventu árið 1865. Sérstök afmælisnefnd var skipuð af sóknarnefnd kirkjunnar til að undirbúa afmælið. Í henni eiga sæti Marta E. Hjaltadóttir, Helgi Jóhannesson, Guðrún Sveinsdóttir, Anna Matthíasdóttir, Magga Brynjólfsdóttir og sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Ákveðið hefur verið að efna til nokkurra viðburða á árinu í tilefni afmælisins. Þeir verða sem hér segir:

1. mars:  Æskulýðsmessa kl. 11.  Ungt fólk úr prestakallinu mun bera uppi messuna í tali og tónum.

7. júní:  1865-messa kl. 14.  Hátíðarmessa þar sem fylgt verður messuforminu frá 1865 og sálmavalið mun líka taka mið af því.  Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, þjónar ásamt sóknarpresti.  Fólk hvatt til að koma í þjóðlegum klæðum til messu og ríðandi þeir sem geta.

5. september:  Uppskeruhátíð kl. 11.  Hefst með fjölskylduguðsþjónustu en síðan munu börn og fullorðnir etja kappi í leikjum á túninu við kirkjuna.  Boðið verður upp á grillaðar pylsur og svaladrykk.

29. nóvember:  Hátíðarmessa kl. 14 á fyrsta sunnudegi í aðventu.  Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prédikar.  Afmælisdagskrá og kaffi í félagsheimilinu á Flúðum á eftir.

Viðburðirnir verða nánar kynntir þegar að þeim kemur.  Þá hefur afmælisnefndin í hyggju að opna sérstakan afmælisreikning þar sem einstaklingum, fyrirtækjum og velunnurum gefst kostur á að styrkja afmælisverkefni sem ætlunin er að ráðast í á árinu og verður það einnig kynnt nánar fljótlega.

Stóra-Núpskirkja í messufríi til páska

Framundan eru framkvæmdir við Stóra-Núpskirkju.  Ráðist verður í að rétta og lagfæra gólf kirkjunnar sem staðið hefur fyrir dyrum um nokkra hríð.  Þetta þýðir að messuhald liggur niðri á meðan á framkvæmdum stendur en stefnt er að því að syngja páskamessuna á nýlagfærðu gólfinu þann 5. apríl kl. 14.  Þangað til er bent á helgihald í öðrum kirkjum prestakallsins.

Dagskrá helgihaldsins næstu mánuði liggur fyrir

Dagskrá helgihaldsins í Hrunaprestakalli í vetur, vor og sumar liggur fyrir.  Hana má sjá undir liðnum ,,Safnaðarstarf” hér fyrir ofan.  Sem fyrr er stefnt að reglulegu og fjölbreyttu starfi.  Ein fjölskylduguðsþjónusta verður í hverjum mánuði til vors og svo er auðvitað hefðbundið helgihald um páska.  Útiguðsþjónusta, hestamannamessa, síðsumarsmessa og uppskeruhátíð eru svo meðal þeirra stefnumóta sem boðað er til í kirkjunum í sumar.

Fjölskylduguðsþjónusta og kvöldmessa 18. janúar

Sunnudaginn 18. janúar verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11.  Sunnudagaskólalögin rifjuð upp og barnasálmarnir ásamt biblíusögu og þá er jafnvel von á gesti í heimsókn.  Samvera fyrir alla fjölskylduna.  Um kvöldið kl. 20:30 verður svo kvöldmessa með léttri tónlist í Hrunakirkju.  Þá mun Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna flytja dægurlög og létta sálma og sóknarprestur flytur ritningarorð, hugvekju og bæn.  Hefðbundið messuform er aðeins brotið upp.  En umsjón með kvöldmessunni hafa Stefán organisti og Óskar prestur.  Allir velkomnir!

Tvær messur á gamlársdag

Á gamlársdag, 31. desember, verður áramótaguðsþjónusta í Tungufellskirkju kl. 15.  Stefán Þorleifsson verður forsöngvari og leiðir almennan safnaðarsöng.  Aftansöngur verður svo í Stóra-Núpskirkju kl. 16:30.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Komum saman í kirkjunni og kveðjum gamla árið.  Allir velkomnir!