Helgihald

Ljós kveikt í Hrepphólakirkjugarði og helgistund í kirkjunni kl. 15

Eftir hádegi laugardaginn 26. nóvember nk. verður aðstoð veitt við að tendra ljós á leiðum í kirkjugarðinum í Hrepphólum.  Að venju verður helgistund í kirkjunni í tengslum við ljóstendrunina kl. 15 og molasopi á eftir.  Allir velkomnir!

Minningarhátíð í Skálholti um Jón Arason biskup – mánudaginn 7. nóv. – allir velkomnir!

Þess verður minnst í Skálholti mánudaginn 7. nóvember n.k. að þann dag árið 1550 var Jón Arason biskup á Hólum líflátinn ásamt sonum sínum tveimur.

 Að þessu sinni verður dagskráin með eftirfarandi sniði:  Kl. 17 verður dagskrá til minningar um Jón Arason í Skálholtsdómkirkju. Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar og Bjarni Harðarson fjallar um aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans Björns og  Ara út frá aðstæðum á staðnum. Vígslubiskup Kristján Valur Ingólfsson minnist þeirra feðga í bænargjörð. Samkomunni lýkur með blysför að minnisvarðanum um Hólafeðga.

 kl. 20.00 verður söngdagskrá kirkjukóra úr Suðurprófastdæmi í Skálholtsdómkirkju.

Þetta er árleg kóradagskrá á minningardegi um Jón biskup Arason og í ár koma fjórir kirkjukórar sem syngja sameiginlega og eigin dagskrá, auk þess að syngja með kirkjugestum.  Vígslubiskup, prófastur og prestar munu lesa ritningarlestra og bænir.
Kórarnir sem syngja eru Kór Selfosskirkju, stjórnandi Edit Molnar, Kór Hruna- og Hrepphólakirkju, stjórnandi Stefán Þorleifsson, Kór Odda- og Þykkvabæjarkirkju, stjórnandi Kristín Sigfúsdóttir og Skálholtskórinn, stjórnandi Jón Bjarnason. Umsjón með dagskránni hefur Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.  Allir eru hjartanlega velkomnir og er aðgangur ókeypis. Á eftir verður hægt að kaupa veitingar í Skálholtsskóla.

6. nóvember – allraheilagra messa: Nágrannar í heimsókn á Stóra-Núpi

Sunnudaginn 6. nóvember sem er allra heilagra messa verður messa kl. 14 í Stóra-Núpskirkju.  Eins og venja er til á allra heilagra messu þá verður látinna ástvina minnst.  Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna kemur í kirkjuheimsókn og mun leiða messusönginn undir stjórn Stefáns Þorleifssonar organista.  Allir hjartanlega velkomnir!

Fjölskylduguðsþjónusta og guðsþjónusta með sálmum sr. Sigurbjarnar sunnudaginn 23. október

Sunnudaginn 23. október nk. verður fjölskylduguðsþjónusta í Stóra-Núpskirkju kl. 11.  Tónlist, söngur, biblíusaga og leynigestur.  Samvera fyrir alla fjölskylduna.  Eftir hádegið verður síðan guðsþjónusta í Hrepphólakirkju kl. 14.  Siðbreytingarinnar minnst og sálmar sr. Sigurbjarnar Einarssonar sungnir.  Molasopi á eftir í safnaðarheimili.  Allir velkominir. Sjáumst í kirkju um helgina!

9. október: Guðsþjónusta í Stóra-Núpskirkju og kvöldmessa með léttri tónlist í Hrepphólakirkju

Guðsþjónusta verður í Stóra-Núpskirkju sunnudaginn 9. október kl. 11.  Kirkjukórinn leiðir söng undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Um kvöldið kl. 20:30 verður síðan kvöldmessa með léttri tónlist í Hrepphólakirkju.  Kirkjukórinn flytur þá hugljúfa sálma í bland við dægurlög.  Undirleikur og stjórn:  Stefán Þorleifsson organisti.  Sjáumst í kirkjunni!

2. október: Fjölskylduguðsþjónusta í Hruna og Tvennir tímar í messu á Ólafsvöllum

Sunnudaginn 2. október nk. verða tvær messur í prestakallinu.  Sú fyrri er fjölskylduguðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 11.  Þar verður mikið sungið, sögð biblíusaga og von er á ungum söngröddum sem syngja munu einsöng.  Félagar úr kirkjukór munu einnig syngja.  Umsjón með fjölskylduguðsþjónustunni hafa sr. Óskar og Stefán organisti.  Samvera fyrir alla fjölskylduna.  Síðari messan er svo í Ólafsvallakirkju kl. 14.  Þar mun sönhópur eldri borgara í uppsveitunum, Tvennir tímar, leiða sönginn undir stjórn Stefáns Þorleifssonar organista.  Allir hjartanlega velkomnir!

Uppskerumessa og fjölskylduhátíð laugardaginn 3. september

Laugardaginn 3. september verður uppskerumessa í Hrunakirkju kl. 11.  Fermingarbörn og foreldrar þeirra hvött til að mæta.  Eftir messu verður farið í reiptog og pokahlaup og fleiri leiki.  Auk þess verður boðið upp á grillaðar pylsur, djús og kaffi.  Notaleg samvera fyrir alla fjölskylduna.  Allir velkomnir!  Sóknarprestur

Hestamannamessa, síðsumarmessa og uppskerumessa framundan

Sunnudagur 14. ágúst: Hestamannamessa í Stóra-Núpskirkju kl. 14. Fólk er hvatt til að koma ríðandi til messu. Hópreið leggur af stað úr Hrunamannahreppi frá Hruna kl. 11. Allir velkomnir!

Sunnudagur 21. ágúst: Síðsumarmessa í Tungufellskirkju kl. 14. Forsöngvari leiðir almennan safnaðarsöng. Allir velkomnir!

Laugardagur 3. september: Uppskerumessa kl. 11 í Hrunakirkju. Félagar úr kirkjukór leiða sönginn. Samvera fyrir alla fjölskylduna. Reiptog, pokahlaup og fleiri leikir eftir messu.  Fjölskyldur fermingarbarna næsta vors hvattar til að mæta því messan markar upphaf fermingarundirbúningsins.  Grillaðar pylsur og molasopi.   Allir velkomnir!
Ég hlakka til samfunda í þessum messum nú í lok sumars – sjáumst í kirkjunni!

19. júní: Guðsþjónusta á Stóra-Núpi kl. 11 og kvöldmessa í Hrepphólum kl. 20:30

Kirkjukórsfélagar leiða söng undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur í guðsþjónustu í Stóra-Núpskirkju.  Sönghópurinn frá G-G leiðir svo söng í kvöldmessu í Hrepphólum undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Sjáumst í kirkjunni – allir velkomnir!

Vísitasía vígslubiskups og prófasts 13. júní – sameiginleg messa um kvöldið í Hruna

Mánudaginn 13. júní munu vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Valur Ingólfsson, og prófastur Suðurprófastsdæmis, sr. Halldóra Þorvarðardóttir, vísitera Hrunaprestakall.  Vísitasían hefst á Ólafsvöllum, þaðan liggur leið að Stóra-Núpi, þá Hrepphólum og loks í Tungufell.  Vísitasían endar síðan í Hruna.  Á öllum stöðum fer fram skoðun á kirkju og kirkjugarði.  Á hverjum stað er fundur með viðkomandi sóknarnefnd, sóknarpresti og organista.  Lokapunktur vísitasíunnar er kvöldmessa í Hrunakirkju kl. 20:30.  Þar mun sameiginlegur kirkjukór prestakallsins syngja undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Vígslubiskup, prófastur og sóknarpestur þjóna auk þess við messuna en þangað eru allir velkomnir.