Helgihald

TAKK!

Messa unga fólksins fór fram í gær, sunnudag, í Hrunakirkju.  Tíundu bekkingar í Flúðaskóla slógu þar gjörsamlega í gegn.  Tónlistin var vel flutt og söngurinn sömuleiðis, ræður vekjandi og áhugaverðar, stuttmyndin frumleg og fyndin.  Bænir, óskir og draumar sem unga fólkið fól í mislitar blöðrur sem síðan var sleppt upp í háloftin að messu lokinni voru einlægar og fallegar.  Í stuttu máli sagt var hvergi veikan hlekk að finna í messunni og framkoma unglinganna var svo ótrúlega afslöppuð og þægileg.  Ástæða er til að færa öllum þeim sem komu að messunni kærar þakkir og umsjónarkennara þeirra líka, henni Báru Sævaldsdóttur, fyrir að hafa dregið vagninn, hvatt áfram og stutt.  Takk fyrir frábæra morgunstund í Hrunakirkju.

13. mars: Messa unga fólksins í Hruna kl. 11

Sunnudaginn 13. mars nk. kl. 11 verður messa unga fólksins í Hrunakirkju.  Þá munu nemendur úr 10. bekk Flúðaskóla bera uppi messugjörðina í tali og tónum.  Frumsýnd verður stuttmynd út frá sögunni af miskunnsama Samverjanum, hljómsveit leikur undir sönginn.  Draumar, óskir, bænir og framtíðarpælingar ungs fólks í forgrunni.  Allir velkomnir!

Kvöldmessa með léttri tónlist á Ólafsvöllum 21. febrúar

Sunnudagskvöldið 21. febrúar verður kvöldmessa kl. 20:30 með léttri tónlist.  Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna leiðir sönginn undir stjórn Stefáns Þorleifssonar organista.  Í kvöldmessunni er áhersla lögð á létta og notalega stemningu og hefðbundið messuform er aðeins brotið upp.  Allir velkomnir!

Góður dagur á Stóra-Núpi og í Árnesi

Það var sannkölluð hátíðarstemning ríkjandi á Stóra-Núpi sl. sunnudag, 7. febrúar og andi sr. Valdimars Briem sveif yfir vötnum.  Því var fagnað að nú er nýkominn út hljómdiskurinn ,,Ó, syng þínum Drottni” með völdum sálmum sr. Valdimars sem kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna flytur.  Kórinn söng sálma við hátíðarmessu og organistar voru Þorbjörg Jóhannsdóttir og Haukur Guðlaugsson.  Sr. Óskar minntist sálmaskáldsins á Stóra-Núpi í ræðu sinni.  Kirkjubekkir voru þétt setnir.  Að messu lokinni var boðið til samsætis í Árnesi þar sem veisluborð svignaði undan kræsingum.  Kórinn flutti þar nokkra sálma til viðbótar undir stjórn Þorbjargar organista og Þórður Helgason bókmenntafræðingur flutti einkar áhugavert og skemmtilegt erindi um kveðskap sr. Valdimars.  Fleiri tóku einnig til máls og lofuðu kórinn og stjórnanda hans fyrir vel unnið verk.

7. febrúar: Fjölskylduguðsþjónusta í Hrepphólum og ,,sr. Valdimars messa” á Stóra-Núpi

Sunnudaginn 7. febrúar verður fjölskylduguðsþjónusta í Hrepphólakirkju kl. 11.  Mikill söngur og gleði.  Nemendur úr Tónsmiðjunni syngja undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Allir velkomnir!  Kl. 14 verður síðan hátíðarmessa í Stóra-Núpskirkju í tilefni af nýútkomnum hljómdiski kirkjukórsins á sálmum sr. Valdimars Briem.  Verður sálmaskáldsins minnst í tali og tónum.  Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Messukaffi og dagskrá í safnaðarheimili á eftir.  Allir velkomnir!

Föstutíð kirkjunnar fyrir dyrum

Níuviknafasta hefst nk. sunnudag 31. janúar.  En sjöviknafastan eða langafasta hefst síðan með öskudegi sem í ár ber upp á 10. febrúar.  Þá eru fjörtíu dagar til páska.  Þessir fjörtíu dagar eru einmitt sami dagafjöldi og Jesús fastaði í eyðimörkinni.  Bolludagur og sprengidagur eru leifar kjötkveðjuhátíða fyrir föstubyrjun en til forna var bannað að neyta kjöts á föstunni.  Fastan er tími íhugunar og sjálfsskoðunar, ætlaður til að dýpka og þroska trúarlífið.  Litur föstunnar er fjólublár sem er litur iðrunar og yfirbótar.  Um aldir hafa Íslendingar sótt leiðsögn í passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar á föstunni.

24. janúar: Fjölskylduguðsþjónusta á Ólafsvöllum og kvöldmessa í Hruna

Sunnudaginn 24. janúar verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11.  Biblíusaga, söngur, hugvekja og bæn.  Samvera fyrir alla fjölskylduna.  Allir velkomnir.  Um kvöldið verður síðan kvöldmessa með léttri tónlist kl. 20:30 í Hrunakirkju.  Þar mun Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna, ásamt Karli Hallgrímssyni tónlistarmanni, flytja lög af nýútkomnum diski þess síðarnefnda, Draumur um koss.  Ritningarorð, hugvekja og bæn.  Í kvöldmessunum er messuformið brotið eilítið upp og áhersla lögð á létta og notalega stemningu.  Undirleikari og stjórnandi söngs er Stefán Þorleifsson.  Sjáumst í kvöldmessu – allir velkomnir!

Kórar hafa ,,kirkjuskipti” á þessu misseri

Á sameiginlegum fundi sóknarnefnda í Hrunaprestakalli sem haldinn var í Árnesi nú í byrjun árs var dagskrá helgihaldsins á þessu misseri rædd og skoðuð.  Dagskráin er nokkuð hefðbundin miðað við síðasta ár en hún nær yfir vormisserið, sumarið og fram í byrjun september.  Ákveðið er að kirkjukórarnir í prestakallinu hafi kirkjuskipti einu sinni á þessu misseri, þannig mun Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna syngja í kvöldmessu með léttri tónlist kl. 20:30 í Ólafsvallakirkju þann 21. febrúar nk.  Síðan mun Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna syngja sálma sr. Valdimars Briem í messu í Hrepphólakirkju sunnudaginn 10. apríl kl. 14.  Lokahátíð barnastarfs verður í fjölskylduguðsþjónustu í Ólafsvallakirkju á sumardaginn fyrsta, 21. apríl kl. 11.  Dagskrá helgihaldsins verður dreift í öll hús í prestakallinu á næstu dögum.

Þrettándinn

Í dag, 6. janúar, er þrettándinn, þrettándi dagur jóla sem jafnframt markar lok hátíðarinnar.  Kirkjusókn um hátíðarnar var hin prýðilegasta og ástæða til að þakka þeim fjölmörgu sem komu til kirkju nú um jól og áramót.  Næstu messur í Hrunaprestakalli verða þann 24. janúar nk.  En þá verður fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11 og svo kvöldmessa með léttri tónlist í Hrunakirkju kl. 20:30.  Dagskrá helgihaldsins á vormisseri og fram á haust verður send inn í hvert hús í prestakallinu á næstunni.  Er þess vænst að hún fái sinn vísa stað á ísskáp heimilisins eða minnistöflu.

Gleðilegt nýtt ár 2016 – sjáumst í nýársmessu 3. janúar kl. 14

Nýársmessa verður í Hrepphólakirkju sunnudaginn 3. janúar kl. 14.  Kirkjukórinn leiðir söng. Organisti er Stefán Þorleifsson.  Molasopi í safnaðarheimili á eftir.  Komum saman og heilsum nýju ári í nýarsmessu – allir velkomnir!