Uncategorized

Gengið til afmælismessu á 150 ára afmæli Hrunakirkju

19. júní – gleðilega hátíð!

Í dag 19. júní fögnum við því að 100 ár eru síðan konur fengu kosningarétt.  Þótt enn sé nokkuð í land í að jafnrétti hafi náðst á hinum ýmsu sviðum samfélagsins þá ber að fagna stórum sigrum í jafnréttisátt.  Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti árið 1980 og það hafði gríðarleg áhrif á jafnréttisbaráttuna.  Í kirkjunni urðu tímamót þegar Agnes M. Sigurðardóttir var kjörinn biskup Íslands, fyrst íslenskra kvenna, fyrir fáeinum árum.  Og nú eru tveir af þremur biskupum landsins konur.  Í þessari viku gerðist það í fyrsta skipti í íslenskri kirkjusögu að tvær konur voru kjörnar til prestsþjónustu í sama prestakallinu, þe í Selfossprestakalli.  Í sóknarnefndum Hrunaprestakalls er gott jafnvægi á milli karla og kvenna, konur eru formenn í tveimur sóknarnefndum og karlar í tveimur.  Áfram skal haldið í jafnréttisátt – gleðilega hátíð!

3. maí: Guðsþjónustur í Hrepphólakirkju og í Stóra-Núpskirkju

Sunnudaginn 3. maí verða tvær guðsþjónustur í prestakallinu.  Sú fyrri í Hrepphólakirkju kl. 11 og hin síðari í Stóra-Núpskirkju kl. 14.  Kirkjukórar sóknanna syngja undir stjórn organistanna.  Allir velkomnir!

Sumargleði á Ólafsvöllum

Gleðin var svo sannarlega við völd í fjölskylduguðsþjónustu í Ólafsvallakirkju á sumardaginn fyrsta.  Börn úr Þjórsárskóla sungu hressileg lög eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni og einnig vor- og sumarlög.  Kirkjan var þétt setin og ungir sem aldnir tóku virkan þátt í messunni í hreyfisöngvum og sálmasöng.  Flutt var hugvekja og biblíusaga.  Helga Kolbeinsdóttir stýrði barnasöngnum og Magnea Gunnarsdóttir lék undir á píanó.  Frábær byrjun á sumri!

Aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar 17. mars

Aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar verður haldinn þriðjudagskvöldið 17. mars nk. kl. 20 í Árnesi.  Sóknarfólk er hvatt til að mæta og láta sig þannig málefni safnaðarins varða.  Dagskrá fundarins er sem hér segir:

 

 • Fundarsetning.  Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 •    Fundargerð síðasta aðalfundar lesin upp, formaður.
 •    Skýrsla Formanns, v/ kirkju og garðs
 •   Skýrsla gjaldkera, kirkja og garður
 •  Skýrsla Prestakallssjóðs, sr. Óskar H. Óskarsson
 •   Helgihaldið. sr. Óskar H. Óskarsson
 •  Kaffihlé.
 •  Reglur um gróður  í kirkjugarðinum
 • Viðmiðunargjald vegna athafna í kirkjunni.
 • Kosningar       Kjósa þarf tvo aðalmenn í Sóknarnefnd/  formann og ritara til fjögurra ára og kjósa þarf tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara til eins árs.
 • Önnur mál.

 

Unga fólkið undirbýr messu

Í síðustu viku átti sóknarprestur fund með nemendum í 10. bekk Flúðaskóla ásamt umsjónarkennara.  Þar var verið að leggja línurnar fyrir unglingamessu sem verður í Hrunakirkju sunnudaginn 1. mars nk. kl. 11.  Lagt er upp með það að nemendur úr 9. og 10. bekk skipuleggi messu frá upphafi til enda og flytji þar bæði talað mál og sungið.  Þessi viðburður er liður í dagskrá í tengslum við 150 ára afmæli Hrunakirkju.  Í næstu viku verður æfing í kirkjunni en spennandi verður að sjá hvernig messu unga fólkið okkar vill bjóða söfnuðinum upp á.

Notaleg kvöldmessa

Í gær, 18. janúar, var kvöldmessa í Hrunakirkju.  Messan var óvenjuleg að því leyti að kirkjukórinn sem venjulega stendur inn í kór kirkjunnar sat nú á kirkjubekkjunum og söng þaðan.  Sungin voru þekkt dægurlög í bland við rótgróna sálma.  Kórfélagar lásu lestra, sjálfvalda, sem hæfðu einstaklega vel andrúminu og sömuleiðis lásu kórfélagar almennu kirkjubænina með presti.  Sunneva Sól Árnadóttir söng einsöng og gerði það fallega.  Áhrifaríkt var þegar kórinn söng sálm sr. Hallgríms Péturssonar; Nú vil ég enn í nafni þínu, í lok messunnar.  En fyrsta erindið var sungið af einni manneskju og svo bættust við fleiri og fleiri raddir inn í sönginn eftir því sem leið á sálminn.   Einstaklega ljúf stund í kirkjunni sem margir fengu að njóta.

4. janúar: Nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 14

Fyrsta messa ársins 2015 verður í Hrepphólakirkju sunnudaginn 4. janúar kl. 14.  Í nýársmessunni syngur kirkjukórinn undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Kaffi á eftir í safnaðarheimili.  Allir velkomnir!

Prestur í leikskóla og grunnskólabörn heimsækja kirkjur

Á miðvikudagsmorgnum undan farnar vikur hefur sóknarprestur heimsótt leikskólabörn í leikskólanum Undralandi á Flúðum og Leikholti í Brautarholti.  Í síðustu samveru var farið yfir nöfnin á kertum aðventukransins og á morgun verður jólasagan sögð með fallegum Biblíumyndum.  En auk þess að heyra sögu er mikið sungið í þessum samverum og spurt, eins og vera ber.  Á fimmtudaginn tekur sóknarprestur á móti nemendum í elstu bekkjum Þjórsárskóla í Stóra-Núpskirkju, þar fá þau fræðslu um kirkjuna og kirkjuhúsið auk þess sem sungin verða jólalög.  Eftir hádegið koma svo nemendur í yngstu bekkjunum í heimsókn í Ólafsvallakirkju og fá þar fræðslu ásamt því að syngja.  Frá Ólafsvöllum verður síðan haldið að Blesastöðum þar sem börnin flytja heimilisfólki þar helgileik og sóknarprestur stýrir stuttri helgistund.

Helgihald um jól og áramót

24. desember – aðfangadagur:  Miðnæturguðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 23.

25. desember – jóladagur:         Hátíðarmessur.  Í  Stóra-Núpskirkju kl. 11 og í Hrepphólakirkju kl. 14.  Hátíðarsöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar sungnir.

Ljósaguðsþjónusta á jóladagskvöld í Ólafsvallakirkju kl. 22.  Kirkjan lýst upp með kertaljósum.

31. desember – gamlársdagur:  Guðsþjónusta í Tungufellskirkju kl. 15.  Forsöngvari leiðir sönginn.  Aftansöngur í Stóra-Núpskirkju kl. 16:30.  Gamla árið kvatt.

4. janúar:                                   Nýársmessa í Hrepphólakirkju kl. 14.  Nýju ári heilsað.

Sjáumst í kirkjunum um hátíðarnar!