Óskar Hafsteinn Óskarsson

This user hasn't shared any biographical information


Posts by Óskar Hafsteinn Óskarsson

16. nóvember: Fjölskylduguðsþjónustur á Stóra-Núpi og í Hrepphólum

Sunnudaginn 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, verður fjölskylduguðsþjónusta í Stóra-Núpskirkju kl. 11.  Börn úr Þjórsárskóla syngja undir stjórn Helgu Kolbeinsdóttur.  Bibilíusaga, mikill söngur og notaleg samvera.  Þorbjörg organisti spilar undir.  Eftir hádegið kl. 14 verður svo önnur fjölskylduguðsþjónusta í Hrepphólakirkju, þar munu börn úr Flúðaskóla syngja undir stjórn Helgu Kolbeinsdóttur og Stefán Þorleifsson leikur undir á orgelið.  Samvera ætluð allri fjölskyldunni – allir velkomnir!

Gátlistar fyrir athafnir

Nú er búið að útbúa minnispunkta eða nokkurs konar gátlista hér á heimasíðunni fyrir athafnir í kirkjunni; skírn, fermingu, hjónavígslu og útför.  Ágætt er að renna yfir minnispunktanna þegar kemur að undirbúningi athafnar.  Sjá efst hér á síðunni til vinstri undir liðnum ,,Athafnir”.

Hrunakirkja 150 ára á næsta ári

150 ára vígsluafmæli Hrunakirkju er á næsta ári, 2015.  Af því tilefni skipaði sóknarnefnd sérstaka afmælisnefnd til að undirbúa og skipuleggja dagskrá í tilefni tímamótanna.  Afmælisnefndin hefur fundað nokkrum sinnum en í henni sitja Marta E. Hjaltadóttir, Helgi Jóhannesson, Magga S. Brynjólfsdóttir, Guðrún Sveinsdóttir og sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson.  Stefnt er að því að halda upp á afmælið með nokkrum viðburðum á afmælisárinu og verða þeir kynntir í byrjun árs.

Æfingadagur hjá kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna

Á laugardaginn síðasta, 1. nóv., var æfingadagur hjá kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna.  Þá mættu kórfélagar kl. 10 í félagsheimilið á Flúðum og stóðu æfingar yfir til kl. 16.  Söngur, gleði og góður andi ríkti á æfingadeginum undir styrkri stjórn organistans Stefáns Þorleifssonar.

Aðventukvöld á Flúðum og í Árnesi

Það styttist í aðventutímann og því skal minnt á aðventukvöldin tvö í prestakallinu.  Það fyrra verður í Félagsheimilinu á Flúðum á fyrsta sunnudegi í aðventu, 30. nóv., kl. 20:30.  Þar munu fermingarbörn sýna helgileik, kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna ásamt kór eldri Hrunamanna syngja aðventu- og jólalög.  Ræðumaður verður Lýður Árnason, héraðslæknir í Laugarási.  Sóknarprestur stýrir samkomunni og kveikt verður á aðventukransi.  Seinna aðventukvöldið verður í Félagsheimilinu í Árnesi annan sunnudag í aðventu, 7. desember, kl. 20.  Þar munu börn úr Þjórsárskóla sýna helgileik, kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna syngur aðventu- og jólalag, kveikt á aðventukransi og sóknarprestur flytur hugvekju.  Sjáumst á aðventukvöldum – allir velkomnir!

Allra heilagra messa 2. nóvember: Messur í Hruna og á Ólafsvöllum

Allra heilagra messa er sunnudaginn 2. nóvember en þá er látinna minnst með sérstökum hætti.  Messur verða í Hrunakirkju kl. 11 og í Ólafsvallakirkju kl. 14.  Kirkjukórar syngja undir stjórn organista.  Allir velkomnir!

Fermingarstörfin fara vel af stað

Fermingarstörfin eru hafin og kemur fermingarhópurinn vikulega til fræðslusamveru í safnaðarheimili Hrunakirkju.  Þrettán börn taka þátt í fermingarundirbúningnum en auk þess að mæta í fræðslusamverur er gert ráð fyrir reglulegum messumætingum og skipta fermingarbörnin þá með sér að starfa í messunni.  Hver fræðslusamvera hefst á stuttu spjalli yfir síðdegishressingu, síðan er farið yfir verkefni dagsins og ef verður leyfir er farið út í göngutúr eða brugðið á leik.  Undir lok samverunnar er farið í Hrunakirkju þar sem við eigum saman stutta helgistund.

Fjölskylduguðsþjónusta flyst frá 2. nóv. til 16. nóv.

Vakin er athygli á því að fjölskylduguðsþjónusta sem vera átti í Hrunakirkju sunnudaginn 2. nóvember flyst í Hrepphólakirkju og verður sunnudaginn 16. nóvember kl. 14.  Er þetta gert vegna vetrarfrís í Flúðaskóla sem er í kringum fyrstu helgina í nóvember.  Hins vegar verður hefðbundin messa í Hrunakirkju sunnudaginn 2. nóvember kl. 11, sem er allra heilagra messa þar sem látinna verður minnst.

19. október: Guðsþjónustur í Hrepphólum og á Stóra-Núpi

Sunnudaginn 19. október verða tvær guðsþjónustur í prestakallinu.  Sú fyrri í Hrepphólakirkju kl. 11 og hin síðari í Stóra-Núpskirkju.  Kirkjukórarnir leiða sönginn undir stjórn organista.  Fermingarbörn aðstoða í athöfnunum.  Allir velkomnir!

Sálmar sr. Valdimars Briem sungnir á hljómdisk

Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna stefnir á að taka upp á hljómdisk nokkra valda sálma eftir sr. Valdimar Briem (1848-1930) sálmaskáld og vígslubiskup á Stóra-Núpi.  En sem kunnugt er þá er sr. Valdimar meðal fremstu sálmaskálda okkar Íslendinga og sálmar hans í núverandi sálmabók kirkjunnar eru taldir í tugum.  Upptökur fara fram á fyrri hluta næsta árs og eru æfingar fyrir þær þegar hafnar undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.