Óskar Hafsteinn Óskarsson

This user hasn't shared any biographical information


Posts by Óskar Hafsteinn Óskarsson

Aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar: Kosning og umgengnisreglur fyrir kirkjugarð

Þriðjudagskvöldið 17. mars sl. var aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar haldinn í félagsheimilinu í Árnesi.  Formaður og gjaldkeri fluttu skýrslu síðasta starfsárs og var hún samþykkt samhljóða.  Sóknarprestur ræddi um kirkjustarfið og fjárstreymi í sameiginlegum prestakallssjóði allra sókna í Hrunaprestakalli.  Þá voru kynntar umgengnisreglur um kirkjugarðinn á Stóra-Núpi og var sóknarnefnd falið að ljúka frágangi þeirra.  Kosið var um tvo aðalmenn í sóknarnefnd og tvo varamenn.  Kristjana Heyden, formaður, og Ámundi Kristjánsson gjaldkeri voru kjörin með lófataki sem aðalmenn í sóknarnefnd til næstu fjögurra ára.  Varamenn til fjögurra ára voru kjörnir Árdís Jónsdóttir í Geldingaholti og Helga Kristinsdóttir á Lómsstöðum.  Rætt var um framkvæmdir í Stóra-Núpskirkju sem staðið hafa á síðustu mánuðum og einnig um kirkjustarfið vítt og breitt.  Góður andi ríkti á fundinum og var bjartsýni einkennandi um framtíð sóknar og kirkjustarfs.

Kirkjuskoðun, orgelspuni og leikir í fermingarbarnaferðalagi

Þann 16. mars fór fermingarbarnahópur úr Hrunaprestakalli ásamt presti í ferðalag.  Byrjað var á því að koma við í Tungufellskirkju og síðan lá leiðin í Miðdalskirkju í Laugardal og loks að Vígðulaug á Laugarvatni. Sagan segir að hópur manna hafi verið skírður upp úr Vígðulaug er þeir komu af Alþingi eftir kristnitökuna árið 1000.  Lík Hólafeðga, Jóns Arasonar biskups og sona hans, voru síðan þvegin upp úr sömu laug árið 1550.  Fermingarbörn lauguðu augun upp úr Vígðulaug eins og gert hefur verið í gegnum tíðina til að tryggja góða sjón. Eftir þessar sögustundir var farið í íþróttahúsið í Reykolti og hoppað mikið í klukkutíma, m.a. var farið í brennó og skotbolta.  Að því loknu beið okkar pizzuveisla í Skálholti og að henni lokinni sýndi Jón Bjarnason organisti okkur töfra kirkjuorgelsins.  Síðan var kirkjan skoðuð vandlega og að sjálfssögðu líka farið í kjallarann til að skoða steinkistu Páls biskups og komast í göngin sem liggja út frá kjallara kirkjunnar.  Eftir góðan dag var síðan haldið heim á leið.

Leikskólaheimsóknir og helgistundir á Blesastöðum í mars

Í marsmánuði eru vikulegar samverur með presti í leikskólum prestakallsins, Undralandi á Flúðum og Leikholti í Brautarholti.  Þar er mikið sungið og spáð og spekúlerað eins og vera ber.  Rebbi refur kemur oft með presti í heimsókn og segir frá ýmsum vandræðum sem hann lendir í.  Þá eru einnig í mars vikulegar helgistundir og spjall við heimilsfólkið á dvalarheimilinu á Blesastöðum á Skeiðum.

Sóknarnefndarfundur í Hrepphólasókn

Mánudaginn 3. mars var haldinn sóknarnefndarfundur í Hrepphólasókn.  Mættir voru bæði aðal- og varamenn í sóknarnefnd ásamt sóknarpresti.  Rætt var um starfsemina í sókninni á síðasta ári, m.a. um prestaskipti og helstu framkvæmdir við kirkju og kirkjugarð.  Þá var ákveðið að ráðast í framkvæmdir á timburverki kirkjunnar að utan á komandi sumri.  Fram kom að hirðing kirkjugarðsins verður unnin í sjálfboðavinnu eins og síðasta sumar.  Sr. Óskar fór yfir safnaðarstarfið og var m.a. rætt um Passíusálmalesturinn sem að venju verður í kirkjunni á föstudaginn langa.  Ákveðið var að halda aðalsafnaðarfund sóknarinnar mánudagskvöldið 20. apríl nk. kl. 20:30 í safnaðarheimili Hrepphólakirkju.  Að lokum urðu almennar umræður um starfið í sókninni og fleira.

15. mars: Guðsþjónustur í Ólafsvallakirkju og Hrepphólakirkju

Sunnudaginn 15. mars verður guðsþjónusta í Ólafsvallakirkju kl. 11.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Guðsþjónusta í Hrepphólakirkju kl. 14.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Kaffihressing á eftir í safnaðarheimili.  Allir velkomnir!

Aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar 17. mars

Aðalsafnaðarfundur Stóra-Núpssóknar verður haldinn þriðjudagskvöldið 17. mars nk. kl. 20 í Árnesi.  Sóknarfólk er hvatt til að mæta og láta sig þannig málefni safnaðarins varða.  Dagskrá fundarins er sem hér segir:

 

 • Fundarsetning.  Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 •    Fundargerð síðasta aðalfundar lesin upp, formaður.
 •    Skýrsla Formanns, v/ kirkju og garðs
 •   Skýrsla gjaldkera, kirkja og garður
 •  Skýrsla Prestakallssjóðs, sr. Óskar H. Óskarsson
 •   Helgihaldið. sr. Óskar H. Óskarsson
 •  Kaffihlé.
 •  Reglur um gróður  í kirkjugarðinum
 • Viðmiðunargjald vegna athafna í kirkjunni.
 • Kosningar       Kjósa þarf tvo aðalmenn í Sóknarnefnd/  formann og ritara til fjögurra ára og kjósa þarf tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara til eins árs.
 • Önnur mál.

 

Unga fólkið sló í gegn

Fjölmenni mætti í Hrunakirkju í morgun, 1. mars, til að upplifa messu unga fólksins.  En messan var í höndum nemenda úr 9. og 10. bekk Flúðaskóla. Þau leystu starf hringjarans, organistans, kórsins, prestsins og prédikarans af stakri snilld.  Fjórar stúlkur leiddu sönginn sem var úr ýmsum áttum, allt frá nýútkomnu söngvakeppnislagi upp í Imagine með Bítlunum.  Vinir þeirra og bekkjarfélagar léku undir á bassa og gítara.  Orgelforspil og eftirspil leysti stúlka úr 10. bekk.  Hlýleg upphafsorð flutti stúlka úr 10. bekk.  Þrjár stuttar hugleiðingar voru fluttar sköruglega af stúlkum úr 10. bekk um viðhorf  til unglinga, viðhorf ungs fólks til kirkjunnar og um aðstæður eldra fólks.  Þá var frumsýnd stuttmyndin Dansinn í Hruna en höfundar og leikarar eru nemendur úr 10. bekk.  Myndin var frábær skemmtun og vel út færð í alla staði.  Bænir, draumar og óskir unga fólksins voru flutt og falin í blöðrum sem síðan var sleppt upp í háloftin að messu lokinni.  Piltur úr 10. bekk flutti síðan fallega lokablessun og bað viðstadda um að standa á fætur og syngja saman sálminn Í bljúgri bæn.  Það voru ánægðir kirkjugestir sem þökkuðu fyrir sig í messulok og héldu heim í vetrarkuldanum, án efa fullir bjartsýni yfir því að eiga svona öflugt og hæfileikaríkt ungt fólk í sínu samfélagi.

Fólk framtíðarinnar messar í Hruna!

Æskulýðsdagur kirkjunnar er sunnudaginn 1. mars.  Þá verður messa unga fólksins í Hrunakirkju.  Fólk framtíðarinnar, nemendur úr 9. og 10. bekk Flúðaskóla, annast messuna í tali og tónum.  Við fáum að sjá nýja uppfærslu á Dansinum í Hruna, heyrum hvað unga fólkið okkar er að hugsa, hverjar eru bænir þess, óskir og draumar.  Hlustum á efnilegt tónlistarfólk – söng og spil.  Sem sagt:  Taktu frá tímann fyrir hádegi á sunnudaginn.  Messan hefst stundvíslega kl. 11 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Þess má geta að messa unga fólksins er fyrsti viðburðurinn af nokkrum í afmælisdagskrá í tilefni af 150 ára afmæli Hrunakirkju.

Sóknarnefndarfundur í Hrunasókn

Mánudaginn 16. febrúar var haldinn sóknarnefndarfundur í Hrunasókn.  Mættir voru bæði aðal- og varamenn í sóknarnefnd ásamt sóknarpresti.  Meðal þess sem rætt var á fundinum var dagskrá afmælisárs Hrunakirkju og helstu framkvæmdir sem ætlunin er að ráðast í á næstunni.  Stefnt er að því að ráða hleðslumann til að hlaða upp kirkjugarðsvegg nú á vordögum og einnig eru uppi áform um að koma fyrir veglegu upplýsingaskilti við kirkjuna þar sem saga kirkju og Hrunastaðar væri rakin í stuttu máli.  Fram kom að afmælisnefndin myndi funda fljótlega til útfæra dagskrá afmælisársins frekar.  Á fundinum var ákveðið að stefna að aðalsafnaðarfundi Hrunasóknar í byrjun maí.  Þá var tilkynnt að héraðsfundur Suðurprófastsdæmis verði haldinn laugardaginn 21. mars í Skógum undir Eyjafjöllum.  Hrunasókn mun senda þangað sína fulltrúa til fundarsetu.  Tilkynnt var að í desember hefði nýtt teppi verið lagt í Hrunakirkju og er almenn ánægja með það.  Að síðustu fór sóknarprestur yfir helstu þætti í kirkjustarfinu framundan.

Fasta gengur í garð

Sjöviknafasta eða langafasta hefst með öskudegi sem í ár ber upp á 18. febrúar.  Þá eru fjörutíu dagar til páska sem minna á dagana 40 sem Jesús fastaði í eyðimörkinni.  Áður fyrr var bannað að neyta kjöts á föstunni og eru bolludagur og sprengidagur leifar kjötkveðjuhátíða fyrir föstubyrjun.  Fastan er tími sjálfsprófunar, til þess ætlaður að fólk horfi inn á við, dýpki og þroski trúarlífið.  Um aldir hafa passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar verið þjóðinni leiðsögn á föstutímanum.