Starfið framundan…

Á sumardaginn fyrsta er vert að horfa björtum augum inn í framtíðina.  Nú liggur fyrir að fermingarathafnir sem vera áttu um hvítasunnu munu færast yfir á dagana 22. og 23. ágúst.  Þá er ákveðið að hefðbundið helgihald samkvæmt áðurútsendri dagskrá hefjist í júní en þá verða þrjár helgistundir í Hrunakirkju og guðsþjónusta í Stóra-Núpskirkju.  Síðsumarsmessa og hestamannamessa verða á sínum stað í ágúst.  En þar sem hefbundið helgihald á hvítasunnu fellur niður er ákveðið að senda út á netinu hvítasunnumessukorn sem tekið verður upp í Stóra-Núpskirkju. Guð blessi okkur sumarið framundan!

Föstudagurinn langi og páskdagur á fésbókinni

Hægt er að nálgast sálmakorn á föstudaginn langa og messukorn á páskadag á fésbókarsíðu Hrunaprestakalls:  facebook.com/hrunaprestakall

Messukorn send út á óvissutímum

Vegna veirufaraldurs og samkomubanns hafa tvo undanfarna sunnudaga (boðunardag Maríu og pálmasunnudag) verið send út messukorn á netinu.  Þessi messukorn geyma spil, sálmasöng, orð og bæn.  Messukornin eru tekin upp í Hrunakirkju en myndir birtast líka frá öðrum kirkjum prestakallsins í útsendingunni.  Framundan er dymbilvikan og svo páskarnir.  Á föstudaginn langa verður sent út passíusálmakorn þar sem tveir lesarar munu lesa úr passíusálmum sr. Hallgríms Péturssonar og á páskadagsmorgun verður síðan sent út ,,hátíðarmessukorn” í tilefni páskahátíðarinnar.  Messukornin má nálgast á fésbókarsíðu Hrunaprestakalls, facebook.com/hrunaprestakall.  Njótum samverunnar heima með okkar nánustu – gleðilega páska!

Messum aflýst – en nýtum færar leiðir til að miðla kærleika og vináttu

Messur sem vera áttu í Hrunakirkju kl. 11 á morgun 15. mars og í Ólafsvallakirkju kl. 14 falla niður vegna veirunnar sem nú gengur yfir land og þjóð. Á meðan samkomubannið er í gildi munu allar messur í prestakallinu falla niður. Nýtum vel þennan óvenjulega tíma til að hlúa að okkar nánustu. Hlýjar bænir, samskipti í síma og á netmiðlum þurfum við að iðka nú sem aldrei fyrr. Og sýna þeim sem minnstar varnir hafa andspænis veirunni sérstaka nærgætni og umhyggju. Nú reynir á okkur að fara nýjar leiðir til að miðla kærleika og vináttu okkar á milli og missa ekki sjónar af því að þetta tímabil gengur yfir. Guð gefi okkur styrk, þolgæði og samstöðu dagana framundan.

Næsta helgi: Kirkjuskóli, messa unga fólksins og guðsþjónusta

Laugardaginn 14. mars kl. 11 verður kirkjuskóli í Hrepphólakirkju.  Síðan verður messa unga fólksins í Hrunakirkju kl. 11 sunnudaginn 15. mars.  Þar munu nemendur úr 10. bekk Flúðaskóla annast messuna í tali og tónum.  Eftir hádegið kl. 14 verður síðan guðsþjónusta í Ólafsvallakirkju.  Sjáumst í kirkjunni!

Framundan í vikunni: Hversdagsmessa á fimmtudaginn og kirkjuskóli á laugardaginn – allt í Hrepphólum!

Hversdagsmessa verður í Hrepphólakirkju fimmtudaginn 5. mars kl. 20.  Kórinn syngur undir stjórn Stefáns organista.  Orð, hugvekja, bæn og blessun.  Allir velkomnir.  Á laugardaginn kl. 11 verður síðan kirkjuskóli í Hrepphólakirkju.  Biblíusaga, söngur og gleði.  Allir hjartanlega velkomnir!

Kirkjuskólinn næstu fjóra laugardaga – 29. feb. – 7. mars – 14. mars – 21. mars

Kirkjuskólinn verður í Hrepphólakirkju í fjóra laugardaga í röð, sá fyrsti verður laugardaginn 29. febrúar kl. 11.  Mikill söngur, biblíusaga, leikur og leynigestur… Allir hjartanlega velkomnir!

23. febrúar: Föstuguðsþjónusta í Hruna og Brynjúlfsmessa á Stóra-Núpi

Sunnudaginn 23. febrúar verður guðsþjónusta í Hrunakirkju kl. 11.  Þar verður andi föstunnar yfirsvífandi í tali og tónum.  Kirkjukórinn syngur undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Eftir hádegið kl. 14 verður síðan messa í Stóra-Núpskirkju, svokölluð Brynjúlfsmessa, en þar verður fræðimannsins og skáldsins Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi minnst í tali og tónum.  Kirkjukórinn leiðir sönginn undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.  Kaffisamsæti á eftir í Árnesi.  Allir hjartanlega velkomnir!

Guðsþjónusta í Hrepphólakirkju 9. febrúar

Sunnudaginn 9. febrúar kl. 11 verður guðsþjónusta í Hrepphólakirkju.  Félagar úr kirkjukórnum syngja undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.  Allir velkomnir!

Hversdagsmessa í Ólafsvallakirkju mánudagskvöldið 3. febrúar

Hversdagsmessa verður í Ólafsvallakirkju mánudagskvöldið 3. febrúar kl. 20.  Kirkjukórinn flytur hugljúfa sálma í bland við dægurlög undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur.  Kórfélagar flytja stutt innlegg frá eigin brjósti.  Ritningarorð, hugvekja, bæn og blessun.  Allir hjartanlega velkomnir!